— Reuters
KERTI voru tendruð fyrir utan skólann í Kauhajoki í Finnlandi í gærkvöldi í minningu þeirra 10 sem létu þar lífið í skotárás í gærmorgun.

KERTI voru tendruð fyrir utan skólann í Kauhajoki í Finnlandi í gærkvöldi í minningu þeirra 10 sem létu þar lífið í skotárás í gærmorgun. Hundruð bæjarbúa söfnuðust saman við skólann undir kvöldið og mikill fjöldi leitaði einnig huggunar í kirkjum bæjarins. Margir áttu erfitt með að gera sér grein fyrir því sem hafði gerst. Áfallahjálp verður í boði á næstu dögum og þegar hafa verið mynduð áfallateymi í samstarfi kirkju og bæjaryfirvalda.

Örþrifaráð einfarans

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

ELLEFU létust í skotárás í iðnskólanum í Kauhajoki í vestanverðu Finnlandi í gærmorgun, er 22 ára nemandi skaut á samnemendur sína og kennara úr skammbyssu og svipti sig loks lífi. Þetta er annað fjöldamorðið í finnskum skóla á innan við ári.

„Atvikið í Kauhajoki er mjög svipað því sem gerðist í nóvember í Jokela,“ segir Ahti Laitinen, prófessor í félagsfræði laga og afbrota við háskólann í Turku. Í samtali við Morgunblaðið segist Laitinen aðeins þekkja til árásarinnar í Kauhajoki úr fjölmiðlum. Hins vegar sé ljóst að gerandinn, Matti Saari, sé úr jaðarhópi samfélagsins, sem hafi átt undir högg að sækja á síðustu árum.

Laitinen segir það sína skoðun að vaxandi vandamál ungs fólks sé hægt að rekja til niðurskurðar ríkisins á félagslegri þjónustu. „Í kjölfar efnahagslægðarinnar á tíunda áratugnum skar ríkið verulega niður samfélagsþjónustu og þ.á m. sálfræðiaðstoð við ungt fólk. Sérfræðingar á mörgum sviðum segja að niðurskurðurinn hafi verið allt of mikill,“ segir Laitinen. Þó ofbeldi eða vandamál venjulegra unglinga hafi kannski ekki aukist svo mikið sé vandi jaðarhópanna mikill, einfarar og ungt fólk með sálræn vandamál beiti ofbeldi í auknum mæli.

Einangrun og niðurlæging

„Það er erfitt fyrir almennan borgara að setja sig í spor einhvers sem fremur slíkan glæp,“ segir Högni Óskarsson geðlæknir. Hann segir að slíkir atburðir virðist yfirleitt vera fyrirfram skipulagðir af gerandanum. „Rótin er yfirleitt óskapleg reiði, oft bæld, og hefnd vegna einhvers, sem viðkomandi upplifir sem misrétti eins og einelti, eða einhvers konar félagsleg einangrun eða niðurlæging,“ segir Högni.

Hann segir gerendur yfirleitt einfara sem ekki hafi sterk tengsl við aðrar manneskjur. „Örþrifaráðið er þá að geta haft síðasta orðið og upphafið sjálfan sig á kostnað allra hinna og stimplað sig á þann öfugsnúna hátt inn í samfélagið,“ segir Högni.