Verk eftir Bach, Saint-Saëns, F. Doppler, Chopin, Bonneau og Fauré. William Bennett flauta og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanó auk flautuleikaranna Hallfríðar Ólafsdóttur, Bernharðs Wilkinson, Emilíu Rósar Sigfúsdóttur og Íslenzka flautukórsins. Föstudaginn 12. september kl. 20.
ÍSLENZKI flautukórinn nefnist 16 manna hljómlistarhópur innan vébanda þverflautunnar, er Theobald Böhm fullkomnaði á 2. fjórðungi 19. aldar. Allavega hvað tækni og afl varðar, þó kunni að hafa verið á kostnað tóngæða barokkflautunnar. En um það geta nútímahlustendur auðveldlega dæmt sjálfir eftir ótal plötuupptakna seinni ára á barokkverkum í svokölluðum upprunaflutningi.

Hitt virðist augljóst, að flautu- leikur er orðinn rakin kvennagrein ef marka má kynjahlutföll blásarasveita jafnt sem sinfóníusveita. Hvað þá í ÍF sjálfum (14 konur, 2 karlar). Hrópar slíkt auðvitað á skýringu – sem að vanda fæst seint meðan athygli félagsfræðinga beinist að flestu öðru en listum.

Hvort fyrrtalin þróun er góð eða slæm skal ósagt látið. Eftir fjölmennum hlustendum föstudagskvöldsins í Salnum að dæma, þar sem yngri konur voru áberandi margar, mátti samt óyggjað staðfesta fyrrgreinda yfirvikt, enda lá í lofti að annar hver (kven)maður væri flautunemi eða -kennari. Annars var stemmningin ekki ólík þeirri sem ríkti á hornleikaratón- leikunum á sama stað í vor þar sem mjög fór fyrir fagfólki á áheyrendabekkjum.

Aðalsegullinn var vitanlega hinn heimskunni Nestor á flautu, Bretinn William Bennett (72) er kennt hefur Bernharði Wilkinson og fleiri löndum okkar. Kynslóð Bennetts var sú síðasta áður en upphafsstefnan ruddi sér afgerandi til rúms og hafði áhrif á túlkun langt utan raða flytjenda forntónlistar. En þó að t.a.m. frekar stórt víbrató Bennetts tilheyri núorðið liðinni og rómantískari nálgun, lét gegnmúsíkalskt innrætið ekki að sér hæða, og ýmislegt í blæstri hans tók mörgum yngri virtúósum fram – m.a. óaðfinnanleg öndunartækni í Bach-verk-unum er jafnan mynda barkabrjótandi prófstein í þeim efnum. Að auki stafaði af honum ekta brezkur séntilmannshúmor sem fer að verða saknaðarefni.

Útsetningar eða umritanir Bennetts á eldri klassískum verkum voru þónokkrar, og gerði sú fyrsta, á 1. Tríósónötu Bachs í Es fyrir orgel (BWV 525), kannski minnst fyrir frumgerðina með til vandræða lítið hlutverk fyrir píanóið, er sá svo til bara um pedalröddina. Öðru máli gegndi um nánar ótilgreint Næturljóð Chopins er virtist sem skapað fyrir 2 flautur og píanó í þokkafullri túlkun Bennetts, Hallfríðar og Önnu Guðnýjar. Sömuleiðis kom Pavane Faurés með píanói og ÍF bráðfallega út, sumpart þökk sé fullnýtingu á flautufjölskyldunni – með m.a.s. kontrabassaflautu í höndum Pamelu de Sensi. Odelette Saint-Saëns naut sín þó síður, og sízt „Valakísku“ lög hins frekar óinnblásna Franz Dopplers; hvort tveggja í dúói flautu og píanós.

Hins vegar var margt skemmtilega gert í meðferð Bennetts og Önnu á E-dúr Sónötu Bachs (BWV–nr. ótilgreint), og Divertissement Pauls Bonneau f. 4 flautur og píanó opinberaði sannkallað lævirkjager í vellandi samstilltum hópblæstri Bennetts, Bernharðs, Hallfríðar, Emilíu og Önnu.

Heildin var sem sé í bezta lagi, og að viðbættu aukanúmeri með þátttöku allra, Salut d´Amour eftir Elgar, var andrúmsloftið nánast á suðupunkti.

Ríkarður Ö. Pálsson