Morðin í smábænum Kauhajoki í Finnlandi á þriðjudag vekja óhug og hrylling. Matti Saari, 22 ára iðnskólanemi, réðst vopnaður byssu inn í skólann sinn, skaut tíu manns til bana, kveikti í og beindi síðan skotvopninu að sjálfum sér.

Morðin í smábænum Kauhajoki í Finnlandi á þriðjudag vekja óhug og hrylling. Matti Saari, 22 ára iðnskólanemi, réðst vopnaður byssu inn í skólann sinn, skaut tíu manns til bana, kveikti í og beindi síðan skotvopninu að sjálfum sér. Óhugurinn er meiri en ella vegna þess að þetta er önnur árásin af þessum toga í Finnlandi á tæpu ári. Í fyrra myrti Pekka-Eric Auvinen átta manns í bænum Jokela og fyrirfór sér síðan. Greinilegt er að Saari fór að fyrirmynd Auvinens.

Leitin að svörum er hafin og þessi harmleikur mun ugglaust leiða til þess að vopnalöggjöf Finna verður endurskoðuð og aðgangur að skotvopnum takmarkaður. Almenn byssueign er óvíða meiri en í Finnlandi. Ekkert var gert eftir árásina í fyrra, en nú hlýtur að koma að því. Sjónir manna munu einnig beinast að finnsku skólakerfi.

Fyrst og fremst verður spurt hvernig andlegt ástand Saaris gat farið fram hjá samferðamönnum hans. Honum er lýst sem venjulegum manni, en þó kemur fram að hann hafi orðið fyrir einelti í hernum og átt erfitt með að komast yfir það. Saari hafði sett ýmislegt á netið, þar á meðal myndskeið af sjálfum sér að munda byssu og var yfirheyrður vegna þeirra á mánudag en sleppt að því loknu. Nú er spurt hvers vegna honum hafi verið sleppt; hvers vegna byssur hans hafi ekki verið gerðar upptækar. Þegar leitað var í herbergi hans eftir árásina fannst yfirlýsing um að hann hataði mannkynið og eina ráðið væri að grípa til vopna.

Of margir harmleikir af þessum toga hafa átt sér stað í skólum víða um heim. Atburðirnir í Finnlandi sýna að þeir geta gerst hvar sem er, líka á Íslandi.

Það er enginn blóraböggull. En árásin undirstrikar mikilvægi þess að hlúa að einstaklingnum og koma í veg fyrir einelti. Saari byrjaði að leggja á ráðin um árásina fyrir sex árum. Hversu margir skyldu fremja glæpi af þessum toga í huganum? Hvernig er hægt að koma þeim til hjálpar?

Einangrun örfárra einstaklinga er of dýru verði keypt. Í Finnlandi ríkir nú þjóðarsorg. Hugur Íslendinga er með Finnum.