Jóhann „Ég held að allra vegna, þá verði ég að víkja og ég vil að ráðherra fái tækifæri til að koma að þeim manni sem getur framfylgt stefnu hans.“
Jóhann „Ég held að allra vegna, þá verði ég að víkja og ég vil að ráðherra fái tækifæri til að koma að þeim manni sem getur framfylgt stefnu hans.“ — Ljósmynd/Víkurfréttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is Þetta var mjög erfiður fundur,“ sagði Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri á Suðurnesjum að loknum fjölmennum fundi með starfsfólki sínu þar sem hann tilkynnti að hann myndi hætta sem lögreglustjóri 1.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

Þetta var mjög erfiður fundur,“ sagði Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri á Suðurnesjum að loknum fjölmennum fundi með starfsfólki sínu þar sem hann tilkynnti að hann myndi hætta sem lögreglustjóri 1. október og þrír stjórnendur með honum.

Jóhann sagðist hafa rakið fyrir samstarfsfólki sínu samskiptin við dómsmálaráðuneytið og kvað starfsfólkið gera sér grein fyrir eðli málsins. „Við fáum ekki sanngjarna málsmeðferð og ég held að landsmenn allir hafi séð að skýringar dómsmálaráðherra standast enga skoðun,“ sagði Jóhann og vísaði til skýringa ráðherra á þeirri ákvörðun að auglýsa stöðu lögreglustjórans. „Ég held að allra vegna, þá verði ég að víkja og ég vil að ráðherra fái tækifæri til að koma að þeim manni sem getur framfylgt stefnu hans í málefnum þessa embættis. Ég vona að það verði einhver góður maður,“ sagði Jóhann og útilokaði að hann myndi sjálfur sækja um stöðuna. „Það kemur ekki til greina,“ sagði hann.

Sagði hann rás atburða hafa verið mjög hraða að undanförnu og ekki væri hægt að svara því hvað tæki nú við hjá sér. Hann sagðist skilja við embættið á mjög erfiðum tíma. „Auðvitað óskar þess enginn að ganga úr embættinu við þessar aðstæður,“ sagði hann.

Þeir sem ganga úr embættinu með Jóhanni eru Eyjólfur Kristjánsson, staðgengill hans, Guðni Geir Jónsson fjármálastjóri og Ásgeir J. Ásgeirsson starfsmannastjóri.

Að sögn Ásgeirs voru allir samstarfsmenn á fundinum mjög slegnir yfir tíðindum dagsins þótt samstaða og stuðningur hefðu einkennt fundinn. „Þetta er afar sorglegt en í ljósi aðdragandans, þá var þetta óhjákvæmilegt,“ sagði hann. Brotthvarf Ásgeirs sjálfs á sér nokkurn aðdraganda, en honum bauðst annað starf „og það lá beinast við að þiggja það þegar þessi staða var komin upp hjá embættinu. Mann langar ekki til að vinna þarna lengur.“

Einn lögregluþjónn sem sat fundinn var óviss um hvort hann mundi halda áfram hjá lögreglunni eftir brotthvarf Jóhanns. „Það hefur verið mjög gott að vinna undir stjórn Jóhanns og hann er líklega besti stjórnandi sem hægt er að hugsa sér,“ sagði hann.

Annar lögregluþjónn sagði illmögulegt að horfa á rás atburða undanfarin misseri án þess að komast að þeirri niðurstöðu að lögreglustjórinn hefði verið lagður í einelti af dómsmálaráðuneytinu. „Ákvörðun ráðherra um að auglýsa embættið mun ekki eiga sér nein fordæmi – en þó kemur hún ekki á óvart í augum þeirra sem til þekkja,“ sagði hann.

Ákvörðunin á sér skýr rök

BJÖRN Bjarnason dómsmálaráðherra segir að skýr efnisleg rök hafi verið færð fyrir því af sinni hálfu að auglýsa lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum og hann hafi ekki búist við þessum viðbrögðum Jóhanns R. Benediktssonar.

„Að lögreglustjóri bregðist við á þann veg, sem fyrir liggur, kom mér á óvart,“ segir Björn og óskar honum, Ásgeiri, Eyjólfi og Guðna velfarnaðar með þökkum fyrir samfylgdina frá 1. janúar 2007.

„Nú blasir við að fylla skörð þeirra, sem kveðja, og tryggja framtíð hins mikilvæga starfs, sem unnið er af lögreglu, tollvörðum og öryggisvörðum við embættið,“ segir Björn.