Fögnuður Eiður Smári Guðjohnsen fagnar innilega sigurmarkinu sem hann skoraði fyrir Barcelona í gærkvöld.
Fögnuður Eiður Smári Guðjohnsen fagnar innilega sigurmarkinu sem hann skoraði fyrir Barcelona í gærkvöld. — Reuters
EIÐUR Smári Guðjohnsen var hetja Barcelona í gær þegar liðið sigraði Real Betis, 3:2, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu en leikurinn fór fram á Nou Camp, heimavelli Börsunga, að viðstöddum 56.000 áhorfendum. Eiður Smári kom inná á 70.

EIÐUR Smári Guðjohnsen var hetja Barcelona í gær þegar liðið sigraði Real Betis, 3:2, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu en leikurinn fór fram á Nou Camp, heimavelli Börsunga, að viðstöddum 56.000 áhorfendum. Eiður Smári kom inná á 70. mínútu og tíu mínútum síðar skoraði hann sigurmark leiksins með góðu vinstrifótarskoti. Þetta var fyrsta mark Eiðs fyrir Katalóníuliðið á tímabilinu en liðið vann sinn annan leik í röð eftir að hafa innbyrt aðeins eitt stig í fyrstu tveimur leikjunum.

Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is

Eiður Smári átti fína innkomu í leiknum og var honum vel fagnað af samherjum sínum og vonandi er að tækifærum hans í liðinu muni fjölga í kjölfarið.

Það virtist ætla að stefna í stórsigur Barcelona en eftir 23 mínútna leik var staðan orðin 2:0 með mörkum Kamerúnans Samuel Eto'o en síðara markið var hans 100. fyrir félagið. En gestirnir voru ekki á því að gefast upp. Þeim tókst með harðfylgi að jafna metin á sjö mínútna kafla fljótlega í síðari hálfleik.

Josep Guardiola þjálfara Barcelona var mjög brugðið sem og stuðningsmönnum liðsins og á 70. mínútu ákvað þjálfarinn að skella Eiði Smára inná á miðjuna sem og Sergi Busquets Burgos og fimm mínútum síðar sendi hann Bojan Krkic á vettvang. Og skiptingarnar báru árangur því á 80. mínútu skoraði Eiður þegar hann renndi sér á boltann eftir fyrirgjöf frá Daniel Alves og boltinn fór í stöng og inn. Og

ekki munaði miklu að fjórða markið liti dagsins ljós en Bojan misnotaði gott færi og Daniel Alves átti skot úr aukaspyrnu sem small í stönginni.

Komst strax í takt við leikinn

,,Þetta var sætt og kominn tími til að minna á sig. Að skora sigurmark er alltaf ánægjulegt, sama hvar er, en miðað við stöðu mína var þetta það sem ég þurfti á að halda,“ sagði Eiður Smári í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.

,,Ég var staðráðinn í að nýta vel þessar mínútur og ég fann mig vel og var fljótur að komast í takt við leikinn. Ég náði að mæta boltanum á fjærstönginni og hitti hann ágætlega og það var virkilega gaman að sjá boltann enda í netinu. Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að ná þremur stigum til að vera í toppbaráttunni,“ sagði Eiður.

Hvaða skilaboð fékkst þú frá Guardiola áður en þú fórst inná?

,,Bara að reyna að lífga upp á leikinn og koma liðinu í gang aftur sem ég tel að hafi tekist. Hann var ánægður með mitt framlag eftir leikinn,“ sagði Eiður Smári.

Skiptingarnar gengu upp

,,Við slökuðum á í byrjun seinni hálfleiks og við fengum að kenna rækilega á því,“ sagði Guardiola eftir sigur sinna manna. ,,Real Betis-liðið hafði engu að tapa eftir fyrri hálfleikinn og það mætti til leiks í síðari hálfleik í sóknarhug og okkur gekk illa að finna taktinn. Ég ákvað að setja Guðjohnsen og Busquets inná til að reyna að ná betri tökum á miðvæðinu og Bojan setti ég inná til að skapa meiri stemningu á vellinum. Skiptingarnar gengu upp að þessu sinni,“ sagði Guardiola en næsti leikur Barcelona er á móti grönnum þeirra í Espanyol á útivelli á laugardaginn.

Meistararnir skoruðu sjö mörk

Spánarmeistarar Real Madrid tóku leikmenn Sporting Gijon í kennslustund og unnu stórsigur, 7:1, en Gijon-liðið tapaði 6:1 gegn Börsungum um síðustu helgi.

Hollendingurinn Rafael Van der Vaart, sem kom til Real Madrid frá þýska liðinu Hamburg í sumar, skoraði þrennu fyrir meistarana, gulldrengurinn Raúl skoraði tvö og þeir Arjen Robben og Gonzalo Higuain gerðu sitt markið hver. Þetta var þriðji sigur Real Madrid í röð