Hryggð Íbúi í Kauhajoki tendrar kerti við skólann í gær.
Hryggð Íbúi í Kauhajoki tendrar kerti við skólann í gær. — Reuters
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is RÆTT er um að herða lög um skotvopnaeign í Finnlandi í kjölfar fjöldamorðsins í fyrradag.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

RÆTT er um að herða lög um skotvopnaeign í Finnlandi í kjölfar fjöldamorðsins í fyrradag. Ungur maður, Matti Juhani Saari, réðst þá til atlögu í iðnskóla í Kaukajoki í vestanverðu Finnlandi og drap níu skólafélaga sína og einn starfsmann skólans með skammbyssu. Segir lögreglan ljóst að maðurinn, sem framdi sjálfsvíg að loknu voðaverkinu, hafi reynt að drepa fólkið, ekki aðeins særa það.

Málið hefur valdið skelfingu í landinu en í fyrra framdi annar ungur maður fjöldamorð í skóla í Finnlandi. Rannsókn lögreglu bendir til þess að Saari hafi keypt skammbyssuna í Jokela, bænum þar sem árásin varð í fyrra. Ekki sé heldur útilokað að árásarmennirnir hafi þekkst, aðfarir þeirra hafi verið svo svipaðar.

Skotvopnaeign er útbreiddari í Finnlandi en flestum öðrum löndum heims, þar eru um 1,6 milljónir slíkra vopna en mest er um að ræða veiðibyssur. Matti Vanhanen forsætisráðherra og fleiri ráðamenn heimsóttu Kauhajoki í gær. Vanhanen er meðal þeirra sem vilja huga að aðgerðum til að reyna að draga úr hættunni á atburðum af þessu tagi.

„Eftir atburði af þessu tagi tel ég að við verðum að kanna hvort það eigi að vera svona auðvelt fyrir fólk að komast yfir handvopn,“ sagði Vanhanen í gær.

Um 14.000 manns búa í Kauhajoki og blöktu þar fánar í hálfa stöng í gær.

„Þögull en ekki einmana“

„Á yfirborðinu bara venjulegur strákur, honum gekk vel í skóla, var þögull en ekki einmana þótt hann byggi einn með kettinum.“ Þannig lýsa vinir Saari honum.

Í grein á vefsíðu danska blaðsins Politiken kemur fram að árið 2006 gegndi Saari herskyldu í bænum Kajaani. Hann hætti skyndilega, ekki er vitað hvers vegna en að sögn vina hans varð hann þar fyrir miklu einelti.

Í febrúar sl. varð hann fyrir líkamsárás við pylsuvagn þegar maður ógnaði honum með byssu. Saari fór að sýna skotvopnum sífellt meiri áhuga.

Lögreglan fann bréf heima hjá honum þar sem fram kom að hann hefði lagt drög að árásinni sl. sex ár, hann segist hata mannkynið og lausnin á öllu sé Walther P22-skammbyssa.