[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is „Ég hef nú bara verið að lifa og leika mér,“ segir Sólon R. Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

„Ég hef nú bara verið að lifa og leika mér,“ segir Sólon R. Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri.

Fáir hafa verið jafnvirkir þátttakendur í byltingarkenndum breytingum innan íslenska bankakerfisins og Sólon, fyrrverandi bankastjóri Búnaðarbankans, á 44 ára ferli sínum. Fyrst í Landsbankanum, svo í Búnaðarbankanum og loks KB banka.

„Ég byggði mér hús á Flórída og þar höfum við hjónin dvalist á veturna. Hugsunin var að bæta sig aðeins í golfinu, lækka forgjöfina,“ segir Sólon. Hann segist einnig eiga sumarbústað í Úthlíð og þar spilar hann einnig golf öðru hvoru.

Sólon var áberandi í íslensku viðskiptalífi sem bankastjóri Búnaðarbankans, en hann stýrði bankanum í gegnum hlutafélagavæðingu og einkavæðingarferli og hélt um stjórnartaumana er bankinn sameinaðist Kaupþingi og varð í kjölfarið stærsti banki landsins. „Þessir þrír áfangar standa ef til vill upp úr á ferlinum,“ segir Sólon. Hann nefnir einnig tímamót í ársbyrjun 1983 er hann flutti sig yfir til Búnaðarbankans frá Landsbankanum. „Ég var ráðinn forstöðumaður erlendra viðskipta hjá Búnaðarbankanum, en bankinn hafði ekki haft slíka deild fyrir þann tíma,“ segir Sólon. Samhliða þessu var hann aðstoðarbankastjóri og varð síðar bankastjóri.

Sólon starfaði allan sinn feril í bankaheiminum en hann hætti á síðasta ári sínu í Menntaskólanum í Reykjavík á sínum tíma til þess að vinna í banka. Hann hafði þá stofnað fjölskyldu og ætlaði að safna „nokkrum krónum“. „Svo ílengdist ég og það varð aldrei úr að halda áfram námi, en það var kannski ágætt því ég ætlaði að verða arkitekt og ég er ekki svo viss um að ég hefði orðið góður arkitekt,“ segir Sólon léttur í bragði.