Í vinnustofunni Ari Alexander Ergis Magnússon leikstjóri og Kristján Loðmfjörð klippari.
Í vinnustofunni Ari Alexander Ergis Magnússon leikstjóri og Kristján Loðmfjörð klippari. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur gunnhildur@mbl.is ÞEGAR Ari Alexander Ergis Magnússon heyrði í fyrsta skipti tónsmíð eftir Jórunni Viðar þá hafði hún svo sterk áhrif á hann að hann pissaði í buxurnar.

Eftir Gunnhildi Finnsdóttur

gunnhildur@mbl.is

ÞEGAR Ari Alexander Ergis Magnússon heyrði í fyrsta skipti tónsmíð eftir Jórunni Viðar þá hafði hún svo sterk áhrif á hann að hann pissaði í buxurnar. Hann var þá reyndar bara fjögurra ára og var að horfa á mynd Óskars Gíslasonar Síðasta bæinn í dalnum í sjónvarpinu, en Jórunn gerði tónlistina við myndina. „Ég man ennþá eftir þessu, þegar tröllið birtist, þá stökk ég bakvið sófa og meig í mig. Þetta voru fyrstu stóru kvikmyndalegu áhrifin sem ég varð fyrir og það var músíkin, ekki bara myndin af tröllinu sem varð til þess að þetta sat mjög sterkt í mér,“ segir Ari.

Nú mörgum árum síðar er hann að leggja lokahönd á heimildamynd um Jórunni sem frumsýnd verður í nóvember. Hann leggur áherslu á að þetta sé ekki fræðslumynd. „Jórunn er að bjóða okkur í ferðalag með sér og við hoppum um borð.“

Leist ekki á hugmyndina í byrjun

Hugmyndin að myndinni kom upp fyrir nokkrum árum þegar Ari vann að myndinni Gargandi snilld sem fjallaði um hljómsveitir sem voru að gera tónlist á sínum eigin forsendum. Í viðtali hans við Björk kom í ljós að hún var að vinna með verk Jórunnar „Vökuró“, sem kom út á plötunni Medúllu . Björk sagði Ara sögur af Jórunni og hann hugsaði með sér að þetta væri efni í sérstaka mynd. „Ég setti mig í samband við Jórunni í kjölfarið og henni leist ekkert rosalega vel á þetta. Ég skil það alveg, allt í einu dúkkar upp einhver maður og vill gera heimildamynd um hana, það kemur bara upp einhver bremsa.“

Honum tókst þó að sannfæra hana að lokum. „Ég fór með Valgarði Egilssyni tengdasyni hennar í kaffi til hennar og við spjölluðum við hana og ræddum þetta dálítið. Þarna fyrst þá vorum við að mæta með margar vélar og ljós og læti, sem stuðaði hana. Svo að ég ákvað að minnka þetta vesen á okkur. Hún leiðir algerlega söguna sjálf, mér finnst skemmtilegast að vinna á þeim forsendum, frekar en að annað fólk sé að bakka viðkomandi upp með einhverjum hetjusögum.“

Tónlist Jórunnar fær að sjálfsögðu að njóta sín í myndinni og Ari fékk líka aðgang að einstöku myndefni. „Ég sá myndaalbúmin hennar þar sem eru ljósmyndir af Jórunni frá því að hún var kornabarn og myndir í gegnum allan ferilinn og ég styðst ákaflega mikið við þær. Þessi ferill er alveg ótrúlegur hjá henni. Ég hugsaði bara með mér: Vá, þessi kona er jafngömul ömmu minni og þetta er svo nálægt mér í tíma en samt svo langt í burtu.“

Myndin gerist á nokkrum stöðum; í Reykjavík, á Þingvöllum þar sem Jórunn á hús og hefur unnið mikið, í Berlín, New York og síðan fór kvikmyndagerðarfólkið með henni til Bayreuth í Þýskalandi á Wagner-hátíð. „Það sem mér finnst svo fallegt við tónlist er að hún tekur við þar sem orðin hætta að hafa nokkra þýðingu. Hún fer með þig inn í einhvern heim sem er óútskýranlegur. Ég upplifi Jórunni sem risavaxið draumkennt ský á ferð í alheiminum, maður dettur inn í hyldjúpa músíkþoku sem breytist í dulmagnað ský og á því ferðumst við inn í töfraheim Jórunnar.“

Frá Breiðavík til Malmö

MYND Ara Alexanders og Bergsteins Björgúlfssonar um líf drengjanna sem vistaðir voru á Breiðavík, Syndir feðranna, keppir um verðlaun sem besta heimildamyndin á kvikmyndahátíðinni Nordisk Panorama, sem fram fer um helgina í Malmö.

Formaður og varaformaður Breiðavíkursamtakanna fara með Ara út til Svíþjóðar. „Við erum búin að vera í sambandi við fólk úr sambærilegum samtökum í Svíþjóð, Noregi og Danmörku og erum að hitta það til þess að bera saman bækur okkar.“

Spilaði meðan Hitler hélt ræðu

JÓRUNN Viðar fæddist árið 1918 í Reykjavík og á því níræðisafmæli í lok ársins. Hún fór til Berlínar í tónlistarnám eftir útskrift frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og MR.

Í samtali við Morgunblaðið í mars lýsti hún andrúmsloftinu í Berlín í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar: „Ég átti eitt sinn að vera í spilatíma á laugardagsmorgni í háskólanum þegar Hitler var að halda ræðu. Allir voru skyldugir til að hlusta svo það var gefið frí í skólanum. Ég mætti samt í tíma og spilaði fyrir kennarann minn í gegnum það sem mér hafði verið sett fyrir. Spurði svo hvort það væri leyfilegt að vera að spila í tíma núna þegar allir væru skyldugir til að hlusta. „Á þetta bull!“ sagði hann, „við tökum ekkert mark á því!“ Hann var nú ekki handtekinn fyrir þessi ummæli enda komu þau ekki fram fyrr en hér á landi svona löngu síðar.“

Hún fluttist síðan til New York þar sem hún stundaði nám í tónsmíðum hjá V. Giannini í Juilliard tónlistarskólanum. Hún átti langan feril sem tónskáld og tónlistarkennari og samdi meðal annars hið þekkta lag „Það á að gefa börnum brauð“ og ballettinn „Eld“. Í fyrrnefndu viðtali í vor vildi hún ekki gera mikið úr sínu farsæla ævistarfi. „Ég veit nú ekki hvað ég á að hrósa mér fyrir í lífinu; það er bara heilög skylda að semja ef manni dettur eitthvað í hug. Ef það sækir á mann verður maður að skila því. Þetta er bara mín pligt, rétt eins og annað, að hugsa um börn eða taka til mat.“