Krísan staðfestir einnig að sumar tegundir afskipta ríkisvaldsins á fjármálamarkaði hafa oft í för með sér að skattgreiðendur sitja uppi með reikninginn.

Eftir Eswar Prasad

Bandaríska fjármálakerfið rambar á barmi bráðnunar. Hið eina sem hefur komið í veg fyrir að þessi marglofaða uppspretta fjármagns renni inn í myrkrið er bandaríska ríkisstjórnin, sem í raun er orðin ábyrgðaraðili kerfisins og lánveitandi þess til þrautavara.

Hvernig gat þetta gerst í fjármálakerfi sem eitt sinn var hampað sem því dýpsta og þróaðasta í heiminum? Hvar endar þetta? Hvaða áhrif hefur þetta á fjármálakerfi heimsins? Þessum spurningum er erfitt að svara af mikilli sannfæringu á meðan við erum enn í miðri kreppunni. Sem stendur virðist hver dagur bera í skauti sér verri fréttir – ekki einu sinni helgarnar veita skjól frá hinu stöðuga flæði depurðar.

Þórðargleði

Hver svo sem niðurstaðan verður er eitt ljóst – heimurinn mun ekki lengur verða áhugasamur um að taka upp þau grundvallarsjónarmið hins frjálsa markaðar sem stýrðu þróun bandarísks fjármálamarkaðar. Þótt vissulega geti neyðin kennt naktri konu að spinna mun hin umfangsmikla íhlutun bandarísku ríkisstjórnarinnar þegar fram líða stundir einnig torvelda málflutning þeirra sem vilja að ríkisvaldið skipti sér ekki af gangvirki fjármálakerfisins.

Enginn vafi leikur á að þórðargleði ríkir meðal þeirra seðlabankastjóra og stjórnmálamanna í nýmarkaðsríkjum sem lengi hafa þurft að sitja undir fyrirlestrum um frjálsan markað. Þeir þakka eflaust einnig æðri máttarvöldum fyrir að hafa staðist freistinguna sem ýmiss konar fjármálanýjungar eru. Þakka fyrir að hagkerfi þeirra hafa enn ekki fengið jafnslæma útreið og Bandaríkin í þeirri kreppu sem sífellt verður augljósari.

Því miður gæti sá lærdómur sem nýmarkaðshagkerfin draga – ef þau taka hann bókstaflega – þó verið rangur. Það er miður því hinn raunverulegi lærdómur sem draga má af kreppunni er sá að afneitun á vissum meginatriðum hins frjálsa markaðar gæti í raun hafa valdið þeirri stöðu sem Bandaríkin eru nú í. Aukinheldur er þróun fjármálamarkaðarins á endanum mikilvæg til þess að þessi hagkerfi geti viðhaldið miklum vexti og gert stærri hluta íbúa landanna kleift að taka þátt í, og hagnast á, þróunarferlinu.

Ræturnar hjá Greenspan

Hvað fór úrskeiðis í Bandaríkjunum? Til dæmis var eitt af meginvandamálum Fannie Mae og Freddie Mac það að eftirlitsaðili þeirra sinnti ekki starfi sínu og varð ekki var við hin miklu bókfærslusvik sem fólust í bókum þeirra. Auk þess gerði ríkisábyrgð sem allir bjuggust við að sjóðirnir hefðu – sem síðan reyndist vera raunin – þeim kleift að vaxa svakalega, þ.m.t. inn á markað með framandi fjármálagerninga sem þeir áttu ekkert erindi á.

Auðvitað má rekja rætur kreppunnar í Bandaríkjunum aftur til tíma Alan Greenspan sem formanns bankastjórnar bandaríska seðlabankans. Þá var auðvelt að ná í peninga og eftirlit var lítið. Hin frægu ninjahúsnæðislán (engar tekjur, ekkert starf og engar eignir) voru jafn skýrt merki og hvað annað um að eftirliti væri ekki sinnt sem skyldi. En hin greinilegu merki um vanrækslu var allt of auðvelt að hundsa þegar vel áraði, sérstaklega í ljósi andúðar núverandi ríkisstjórnar á eftirliti.

Greinilegt er að nýjungar á fjármálamarkaði gefa ekki góða raun ef skilvirkt eftirlit skortir. Í hinum nýja heimi háþróaðra fjármálamarkaða leynast víða hættur.

Kreppan sem nú ríkir bendir til þess að stífar reglur gefi fjármálastofnunum kost á að fela áhættu í eignasöfnum sínum eða færa hluti til til þess að láta stöðluð áhættupróf koma betur út en þau í raun og veru eru. Það er óhentugt að setja upp reglugerðaramma sem tekur til hvers einasta fjármálagernings og hverrar einustu fjármálastofnunar. Frekar væri vit í því að þróa grundvallarramma sem hægt væri að laga að framþróun fjármálamarkaða og taka upp breiðari nálgun til stjórnunar á kerfislægri áhættu. Það var greinilega ekki til staðar.

Freistnivandi og lélegt eftirlit

Krísan staðfestir einnig að sumar tegundir afskipta ríkisvaldsins á fjármálamarkaði hafa oft í för með sér að skattgreiðendur sitja uppi með reikninginn – sérstaklega þegar um er að ræða óyfirlýsta ríkisábyrgð á skuldbindingum stofnana sem út á við kallast „einkaaðilar“. Hinn raunverulegi lærdómur af Fannie- og Freddie-klúðrinu ætti að vera varðandi áhættuna sem hlýst af því þegar óyfirlýstar ríkisábyrgðir tengjast freistnivanda og lélegu eftirliti. Ennfremur um þær hættur sem leynast, jafnvel í þróuðum fjármálakerfum. Þessar hættur eru stærri í minna þróuðum kerfum og kostnaðurinn við að hreinsa til þegar illa fer getur einnig reynst hlutfallslega meiri fyrir fátækari hagkerfi.

Kreppan hefur leitt í ljós að svik, spilling og afskipti hins opinbera geta grafið undan grunnstoðum jafnvel dýpstu fjármálakerfa, sérstaklega þegar þessi vandamál magnast vegna offjötraðs eftirlitskerfis sem stundum sér ekki greinilegar skemmdir í kerfinu. Það, að minnsta kosti, er lærdómur sem nýmarkaðshagkerfi ættu hiklaust að draga af fjármálakreppunni.

Eswar Prasad er prófessor í hagfræði við Cornell-háskóla og félagi við Brooking-stofnunina. Hann er fyrrverandi yfirmaður fjármálarannsókna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. © 2008 Project Syndicate Millifyrirsagnir eru Morgunblaðsins.