LANDFYLLING á Kársnesi í Kópavogi gæti haft margvíslegar afleiðingar fyrir Reykjavík. Áhrif á lífríki og sjávarstrauma, hávaða- og svifryksmengun eykst og ásýnd Skerjafjarðar breytist.

LANDFYLLING á Kársnesi í Kópavogi gæti haft margvíslegar afleiðingar fyrir Reykjavík. Áhrif á lífríki og sjávarstrauma, hávaða- og svifryksmengun eykst og ásýnd Skerjafjarðar breytist. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri umsögn umhverfis- og samgöngusviðs vegna skipulagsbreytinga á Kársnesinu.

Umhverfis- og samgönguráð ítrekaði á fundi fyrir skömmu áhyggjur sínar af umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á Kársnesinu í Kópavogi. Ráðið harmaði jafnframt að framkvæmdir stæðu yfir á Kársnesi þótt lögformlegt ferli á umhverfisáhrifum aðgerðarinnar teldist vart hafið. Ráðið óskaði eftir umsögn umhverfis- og samgöngusviðs um þetta mál og samþykkti hana á fundi sínum í fyrradag.

Umhverfis- og samgöngusvið segir að ekki sé hægt að sætta sig við að eitt sveitarfélag við Skerjafjörð geti framkvæmt landfyllingu í sjó fram að sveitarfélagamörkum sínum án þess að spyrja aðra.

Nefndin bendir á að boðuð landfylling geti haft veruleg langtímaáhrif og mikil breyting verði á ásýnd Skerjafjarðar því Kársnesið er nánast fyrir miðju Skerjafjarðar. Bent er á að Umhverfisstofnun hafi það til skoðunar að friðlýsa Skerjafjörð.

Uppbygging á landfyllingu yki hættu á meiri svifryksmengun í Reykjavík vegna nýrrar byggðar og umsvifa. Reykjavíkurborg vilji að betur verði gerð grein fyrir því hvers konar atvinnustarfsemi er fyrirhuguð á svæðinu.

Kópavogsbær sendi frá sér tilkynningu í gær, þar sem segir að hér sé aðeins um tillögu að ræða, sem ekki hafi hlotið endanlega afgreiðslu. Umrædd skipulagstillaga sé aðeins fyrsta stig í lögbundnu og umfangsmiklu kynningarferli.