LANDSLIÐSKONAN Margrét Lára Viðarsdóttir gæti verið á leið til Hollywood-borgarinnar Los Angeles til að spila þar knattspyrnu í nýrri atvinnumannadeild Bandaríkjanna á næstu leiktíð.

LANDSLIÐSKONAN Margrét Lára Viðarsdóttir gæti verið á leið til Hollywood-borgarinnar Los Angeles til að spila þar knattspyrnu í nýrri atvinnumannadeild Bandaríkjanna á næstu leiktíð. Bandaríkjamenn ætla að leggja mikinn metnað í þessa nýju deild og er ætlunin að fá allar bestu knattspyrnukonur heimsins til að spila þar.

Sjö lið munu leika í deildinni og má hvert þeirra semja við fjóra erlenda leikmenn, að því gefnu vitaskuld að samningar náist við félag viðkomandi leikmanns. 28 af bestu leikmönnum heims utan Bandaríkjanna var því raðað niður á liðin og fékk lið St. Louis réttinn til að semja við Margréti Láru. Los Angeles fékk réttinn til að semja við einn besta leikmann Svía, Lottu Schelin, og ákváðu félögin að skipta á leikmönnum, svo rétturinn er nú Los Angeles að reyna að ná samningum við Val og Margréti Láru.

Á meðal þeirra sem Margrét Lára myndi sennilega spila með ef hún færi til Los Angeles er skærasta stjarna kvennaknattspyrnunnar, hin brasilíska Marta sem leikur nú í Svíþjóð, en LA fékk einnig réttinn til að semja við hana. Saman gætu þær myndað firnasterkt sóknarpar.

Margrét viðurkenndi í samtali við Morgunblaðið á dögunum að hugurinn stefndi út fyrir landsteinana, og nú verður að koma í ljós hvort LA verður fyrir valinu. sindris@mbl.is