Tillaga Helga Hjörvar, þingmanns Samfylkingar, að selja einkaaðilum Kárahnjúkavirkjun og fleiri virkjanir ríkis og sveitarfélaga á rætur að rekja í samkomulagi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í orkumálum frá því vetur.

Tillaga Helga Hjörvar, þingmanns Samfylkingar, að selja einkaaðilum Kárahnjúkavirkjun og fleiri virkjanir ríkis og sveitarfélaga á rætur að rekja í samkomulagi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í orkumálum frá því vetur. Morgunblaðsgrein Helga fær góðar undirtektir meðal sjálfstæðismanna og hjá forstjóra Landsvirkjunar sem þó bendir á að það sé ekki fyrirtækisins að taka afstöðu í þessu.

Helgi telur að almannahagsmunir yrðu tryggðir um leið og ríkið hætti að reka orkuframleiðslu fyrir stóriðju. Auðlindirnar sjálfar yrðu í almannaeign en opnar fyrir einkarekstri virkjananna sjálfra. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, telur að með tillögu sinni sé Helgi fyrst og fremst að leiða athyglina frá stóriðjustefnu Samfylkingarinnar. „Það er verið að afvegaleiða umræðuna og koma henni á pólitískt lygnari sjó fyrir Samfylkinguna.

Hver vill kaupa Kárahnjúkavirkjun, arðsemin þar er meira en tvísýn,“ segir Álfheiður sem er fyrrverandi stjórnarmaður í Landsvirkjun, eins og Helgi. Álfheiður tekur undir að aðskilnaður stóriðju og almenningsnota í sérstöku félagi fyrir virkjanir í stóriðju væri af hinu góða. „Hann myndi tryggja að kostnaði yrði ekki velt yfir á almenning og að eðlileg arðsemiskrafa yrði gerð.“ Þingmaðurinn telur hinsvegar ekki að þann aðskilnað eigi að gera með útboði til einkaaðila. „Ég vil ekki selja virkjanirnar, ég vil að samfélagið njóti arðsins, hér eftir sem hingað til,“ segir Álfheiður. Hún segir Kárahnjúkavirkjun hafa sérstöðu því hún sé fyrsta virkjun Landsvirkjunar sem hafi verið byggð alfarið fyrir stóriðjuna og rekstur hennar sé meira en tvísýnn. Kaupandi að henni yrði trúlega vandfundinn.

„Hugsanlega vill Alcoa kaupa Kárahnjúkavirkjun á útsölu, aðrir varla,“ segir Álfheiður Ingadóttir.