[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rapparinn Ne-Yo hefur sagt að væntanleg plata Michaels Jacksons verði að vera stórkostleg, ella verði hún ekki gefin út. Ekkert er vitað hvenær platan kemur út.

Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir.is

„Ný plata Michaels verður að vera stórkostleg. Hún þarf að vera betri en Thriller,“ segir rapparinn og lagasmiðurinn Ne-Yo en hann hefur, ásamt mörgum öðrum, tekið að sér að semja lög fyrir nýja plötu poppgoðsins Michaels Jacksons.

Michael mun hafa sagt öllum lagasmiðunum sem vinna að plötunni með honum að hann muni ekki gefa hana út fyrr en hann sé viss um að hún sé í sama gæðaflokki og hin gríðarlega vinsæla Thriller-plata frá árinu 1982.

Mikil eftirvænting ríkir vegna væntanlegrar plötu Michaels Jacksons en hann hyggst með henni endurheimta eitthvað af sinni fyrri frægð, sem hefur dvínað mjög með árunum. Ne-Yo, sem hefur meðal annars samið lög fyrir söngkonur á borð við Rihanna og Beyoncé, sagði í viðtali við breska fjölmiðla að fyrrverandi poppkóngurinn hefði miklar áhyggjur af því að platan myndi ekki slá í gegn.

„Michael er mjög taugaóstyrkur því hann veit að hann er lítilmagninn og fólk vill að honum mistakist. Það er erfitt að vita að allir einblína á mann og um leið að vita af allri þessari samkeppni frá yngri tónlistarmönnum.“

Ne-Yo bætti því við að hann hefði þegar samið nokkur lög fyrir Jackson en hann hefði ekki hugmynd um hvenær platan kæmi út.

„Hann er alltaf að fresta útgáfu plötunnar,“ sagði Ne-Yo.