Flestir eru sammála um að hreyfing er mjög mikilvæg til að halda góðri heilsu. Það hentar alls ekki öllum að svitna innan í líkamsræktarstöð eða að stunda hópíþróttir og verður hver og einn að finna hvað hentar sér.

Flestir eru sammála um að hreyfing er mjög mikilvæg til að halda góðri heilsu. Það hentar alls ekki öllum að svitna innan í líkamsræktarstöð eða að stunda hópíþróttir og verður hver og einn að finna hvað hentar sér. Síðastliðin 19 ár hefur verið starfrækt heilsurækt sem ber nafnið Kraftganga (www.kraftganga.is) og felst í hressandi gönguferðum innanbæjar sem utan.

„Þetta er alhliða æfing sem hentar hverjum sem er, jafnt þeim sem eru í góðu formi fyrir og þeim sem vilja byggja sig upp,“ segir Hjördís María Ólafsdóttir, sem starfar sem leiðbeinandi hjá Kraftgöngum.

„Við förum reglulega í gönguferðir í Öskjuhlíðinni þar sem gengið er rösklega í bland við líkamsæfingar.“ Hún segir göngunum skipt upp í byrjendahópa þar sem farið er hægar yfir og hópa fyrir lengra komna. „Byrjendatím-arnir henta mjög vel þeim sem vilja drífa sig af stað aftur. Þar hefur til að mynda verið fólk sem er að byggja sig upp eftir krabbameinsmeðferð,“ bætir hún við.

„Þetta er annars mjög breiður hópur og fólk á öllum aldri. Í áranna rás hefur síðan ákveðinn hópur komið endurtekið. Með æfingunum sem eru fimm daga í viku eru þáttakendurnir svo undirbúnir undir lengri dagsferðir sem einnig eru farnar,“ segir Hjördís María og bætir við að meðal áfangastaða þeirra séu Eyjafjallajökull, Þingvellir og Baula svo eitthvað sé nefnt.

Hjördís segir bæði ferðirnar og innanbæjargöngurnar vera allan ársins hring og það sé einmitt gott að drífa sig út jafnt um vetur sem sumar. „Maður lærir að njóta náttúrunnar í sínum ýmsu búningum og hjá okkur er aldrei of vont veður til að fara út.“ rs@24stundir.is