HLYNUR Hallsson ætlar að taka daginn í dag rólega en mun að öllum líkindum halda upp á afmælið í Nýlistasafninu á laugardaginn milli kl. 17 og 19.

HLYNUR Hallsson ætlar að taka daginn í dag rólega en mun að öllum líkindum halda upp á afmælið í Nýlistasafninu á laugardaginn milli kl. 17 og 19. „Sýningunni minni í Nýlistasafninu er að ljúka um helgina og er tilvalið að enda hana með afmælisveislu,“ segir Hlynur.

Ástæðan fyrir því að hann getur ekki slegið því föstu hvort veislan verði haldin eða ekki er sú að kona hans, Kristín Þóra Kjartansdóttir, gengur með fjórða barn þeirra hjóna og er von á því í heiminn næstu dagana. Fyrir eiga þau Huga, Lóu Aðalheiði og Unu Móeiði.

Beðinn um að lýsa list sinni segist Hlynur skrifa texta, taka ljósmyndir og framkvæma gjörninga. „Ég vinn oft með aðstæður á hverjum stað, hluti sem henta aðstæðum þannig að þetta flokkast undir hugmyndalist en ég mála ekki neitt,“ segir hann. Hlynur lærði á Akureyri, í Myndlista- og handíðaskólanum, og hélt svo til Þýskalands þar sem hann nam í Hannover, Hamborg og Düsseldorf. Útskrifaðist hann með mastersgráðu árið 1997.

Hlynur segir eina eftirminnilegustu afmælisgjöfina vera hjólið sem hann fékk í 30 ára afmælisgjöf. Það hjól notar hann enn á hverjum degi en þó að fjölskylda Hlyns eigi bíl segist hann reyna að nota hann sem minnst. „Maður tekur eftir því að það eru miklu fleiri á hjólum nú en fyrir ári og það er mjög ánægjulegt.“ ylfa@mbl.is