Á útleið Jóhann segir alvarlega stöðu löggæslunnar í landinu verulegt áhyggjuefni.
Á útleið Jóhann segir alvarlega stöðu löggæslunnar í landinu verulegt áhyggjuefni. — Mynd/Víkurfre´ttir/Hilmar
Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@24stundir.is Jóhann R. Benediktsson óskaði í gær eftir því við dómsmálaráðuneytið að fá að hætta störfum sem lögreglustjóri Suðurnesja frá og með 1. október næstkomandi.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@24stundir.is

Jóhann R. Benediktsson óskaði í gær eftir því við dómsmálaráðuneytið að fá að hætta störfum sem lögreglustjóri Suðurnesja frá og með 1. október næstkomandi. Auk Jóhanns óskuðu þeir Eyjólfur Kristjánsson, staðgengill lögreglustjóra, Guðni Geir Jónsson fjármálastjóri og Ásgeir J. Ásgeirsson, starfsmannastjóri embættisins, eftir því að hætta störfum á sama tíma.

Þeir tilkynntu starfsmönnum embættisins þetta á fundi í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju klukkan fimm í gær. Jóhann telur að „algjör trúnaðarbrestur“ ríki milli dómsmálaráðuneytisins og yfirstjórnar embættisins.

Í tilkynningu frá Jóhanni segir að hann meti því stöðuna þannig að „nýir stjórnendur, þóknanlegir ráðuneytinu, verði að koma að embættinu“.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafði enn ekki fallist á beiðni þeirra þegar 24 stundir fóru í prentun í gær.

Leit á auglýsingu sem uppsögn

24 stundir sögðu frá því á laugardag að Jóhanni hefði verið tilkynnt á fundi með Þórunni Hafstein, skrifstofustjóra á dómsmála- og löggæsluskrifstofu dómsmálaráðuneytisins, að starf hans yrði auglýst laust til umsóknar þegar skipunartími hans rennur út 31. mars 2009. Heimildir 24 stunda herma að Jóhann hafi litið á þetta sem uppsögn.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra rökstuddi auglýsingu starfsins á heimasíðu sinni með því að embætti lögreglustjórans hefði tekið stakkaskiptum síðan Jóhann var skipaður í það og auk þess hefði hann ákveðið að skipta upp embættinu. Í tilkynningu Jóhanns segir að hann telji „þær skýringar léttvægar og dæma sig sjálfar“.

Samfylkingin gegn breytingu

Til að uppskipting embættisins verði að veruleika þarf að samþykkja breytingar á tollalögum á Alþingi, en það hefur enn ekki verið gert. Þingflokkur Samfylkingar lagðist gegn breytingunum í vor eftir að ríkisstjórnin var búin að samþykkja þær. Samkvæmt heimildum 24 stunda var tíðindum um auglýsingu á starfi Jóhanns ekki vel tekið innan þingflokks Samfylkingar. Þar innanbúðar töldu margir að skilaboðin frá flokknum hefðu verið alveg skýr þegar stjórnarfrumvarpið um breytingar á tollalögum hefði verið stöðvað og ekki var ætlast til þess að neinar breytingar yrðu gerðar án umræðu innan stjórnarflokkanna.

Algjör trúnaðarbrestur

Í tilkynningu Jóhanns segir að aðdragandi uppsagnanna hafi verið langur en að kaflaskil hafi orðið í mars þegar dómsmálaráðherra tilkynnti að hann vildi skipta embættinu upp. Jóhann segir samskipti ráðuneytis og embættisins hafa „frá þeim tíma verið afar stirð“. Reynt hafi verið af hálfu embættisins að vinna markvisst að lausn deilunnar en sú vinna embættisins hafi „ekki fengið hljómgrunn innan ráðuneytisins“. Jóhann segir „algjöran trúnaðarbrest“ vera milli dómsmálaráðuneytisins og yfirstjórnar embættisins og við þær aðstæður komi embættið „ekki til með að njóta sannmælis og sanngjarnar meðferðar innan ráðuneytisins“. Því metur Jóhann stöðuna þannig að stjórnendur þóknanlegir dómsmálaráðuneytinu verði að koma að embættinu. Flestir tollgæslu- og lögreglumenn sem 24 stundir ræddu við í gær töldu líklegast að Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri myndi sækja um og fá stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Í hnotskurn
„Nú er svo komið að algjör trúnaðarbrestur er á milli aðila.“ „Nýir stjórnendur, þóknanlegir ráðuneytinu, verði að koma að embættinu.“ „Alvarleg staða löggæslunnar í landinu er verulegt áhyggjuefni fyrir samfélagið allt og róttækra aðgerða þörf ef ekki á illa að fara.“