Fylgst með Hluti af leikmönnum Keflavíkur fylgjast spenntir með upphafsmínútunum í leik FH og Breiðabliks -síðan fóru þeir á æfingu í hálfleik þegar FH var komið í 3:0. „Ekki eftir neinu að bíða með það“ sagði þjálfarinn.
Fylgst með Hluti af leikmönnum Keflavíkur fylgjast spenntir með upphafsmínútunum í leik FH og Breiðabliks -síðan fóru þeir á æfingu í hálfleik þegar FH var komið í 3:0. „Ekki eftir neinu að bíða með það“ sagði þjálfarinn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
MEISTARAFLOKKUR Keflavíkur kom saman í félagsheimili sínu til að fylgjast með leik FH og Breiðabliks í Landsbankadeildinni. Tilefnið var ærið því tækist FH ekki að leggja Breiðablik væru Keflvíkingar orðnir Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í 35 ár.

MEISTARAFLOKKUR Keflavíkur kom saman í félagsheimili sínu til að fylgjast með leik FH og Breiðabliks í Landsbankadeildinni. Tilefnið var ærið því tækist FH ekki að leggja Breiðablik væru Keflvíkingar orðnir Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í 35 ár. Eftirvæntingin var því mikil og viðbúið að félagsheimilið myndi fyllast af stuðningsmönnum liðsins færi svo að Blikar næðu stigi af FH. Það varð ekki og leikmenn hættu að horfa á leikinn í hálfleik, enda staðan þá 3:0 fyrir FH, og fóru á æfingu í Reykjaneshöllinni.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Það voru um 40 manns sem sátu og horfðu á fyrri hálfleikinn í félagsheimilinu og sögðu leikmenn þegar þeir komu í hús sð auðvitað væri smá-fiðringur í maganum enda mikið í húfi. „Jú, jú, það er smá-fiðringur, það er ekki hægt að neita því,“ sagði Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflvíkinga og markahæsti maður liðsins, þegar hann mætti til leiks.

Er í okkar höndum

Jóhann Birnir Guðmundsson, sem gekk til liðs við Keflvíkinga frá GAIS frá Svíþjóð í lok júlí, sagði að vissulega væri nokkur fiðringur og spenningur í mannskapnum. „Ég neita því ekki að það er smá-fiðringur í maganum, en kosturinn við þetta er auðvitað sá að við erum með þetta í okkar höndum, sama hvernig þessi leikur fer. Það væri auðvitað skemmtilegast að verða meistari á okkar heimavelli í síðustu umferðinni, en öruggast ef Blikar næðu stigi af FH þannig að titillinn kæmist í höfn í kvöld,“ sagði hann áður en leikurinn hófst.

Leikurinn fór af stað og á milli manna gekk blað þar sem leikmenn spáðu fyrir um úrslit leiksins. Atli Viðar Björnsson kom FH yfir á 8. mínútu. „Æ, æ!“ heyrðist í salnum og einn leikmaður spurði hvort hann mætti breyta spánni – greinilegt að hann hafði ekki spáð því að FH-ingar næðu að skora mark. Það fékkst auðvitað ekki og félagar hans gerðu góðlátlegt grín að honum.

Hefðu átt að jafna

Þrátt fyrir að FH væri komið yfir var nokkur spenna í salnum og margir risu úr sætum og fórnuðu síðan höndum á 22. mínútu þegar Nenad Petrovic komst í dauðafæri og reyndi að setja boltann yfir Gunnar markvörð FH, en hann náði að verja. „Ohhh! Þarna hefðu þeir átt að jafna,“ sagði einn leikmanna og flestir voru sammála því. „Þeir geta þetta alveg!“ sagði annar og menn héldu í vonina.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, mætti ekki fyrr en á 32. mínútu og virtist pollrólegur. „Nú strax komið 1:0. Hvernig hefur þetta verið?“ spurði hann og fór fram og fékk sér kaffi. Settist síðan og horfði á það sem eftir var af fyrri hálfleiknum.

Halló dómari!

Spennan hélt áfram þó svo menn tækju þessu öllu með stóískri ró. „Halló! Dómari! Hvað er hann að hugsa, þetta er gult spjald og ekkert annað,“ sögðu Keflvíkingar þegar þeim fannst dómarinn sleppa FH-ingum vel við nokkuð harkalega tæklingu.

Atli Guðnason kom FH í 2:0 á 39. mínútu og greinilegt var á svip leikmanna Keflavíkur og þeir töldu líkurnar á að geta fagnað hafa minnkað verulega.

Áfram var samt setið en þegar Atli Viðar bætti þriðja markinu við á síðustu andartökum fyrri hálfleiks fannst mönnum nóg komið.

„Það er ekki eftir neinu að bíða hérna. Við förum á æfingu,“ sagði Kristján þjálfari og strákarnir stóðu allir upp sem einn maður og héldu upp í Reykjaneshöllina þar sem þeir æfðu. „Við æfum alltaf klukkan hálfsex og miðað við hvernig þessi leikur var þá var ekki yfir neinu að hanga og alveg eins gott að fara bara á æfingu,“ sagði Kristján.

Það höfðu samt ekki allir taugar til að sitja alveg fram í hálfleik. „Þetta er búið. Við verðum víst að bíða fram á laugardag með að fagna, en við gerum það þá, það er ekki spurning,“ sagði dyggur stuðningsmaður Keflavíkurliðsins sem man þegar liðið varð Íslandsmeistari síðast, árið 1973. „Það verður líf og fjör í Keflavík á laugardaginn, því get ég lofað þér,“ sagði hann.

Nú er bara að taka hann á orðinu og fara á leik Keflavíkur og Fram á laugardaginn.

Í hnotskurn
» Keflavík varð síðast Íslandsmeistari fyrir 35 árum, 1973, og stendur nú vel að vígi með að hreppa hann á ný.
» Keflvíkingar taka á móti Fram klukkan 16 á laugardaginn og vinni þeir leikinn, er titilinn þeirra.
» Jafntefli gæti líka dugað, svo framarlega sem FH vinnur ekki Fylki með meiru en einu marki.