Risar Fjárfestingarbankar réðu lengst af ríkjum á Wall Street, en eftir hremmingar undanfarinna mánaða hafa þeir misst tökin á veiðilendunum.
Risar Fjárfestingarbankar réðu lengst af ríkjum á Wall Street, en eftir hremmingar undanfarinna mánaða hafa þeir misst tökin á veiðilendunum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðmund Sverri Þór sverrirth@mbl.is Fjárfestingarbankar hafa verið í sviðsljósi fjölmiðla undanfarnar vikur og mánuði.

Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is

Fjárfestingarbankar hafa verið í sviðsljósi fjölmiðla undanfarnar vikur og mánuði. Í raun má segja að fjárfestingarbankar heimsins hafi verið óvenjulega mikið í fréttum allt þetta ár og allt frá því að mönnum varð ljóst að ekki var allt með felldu á fjármálamörkuðum heimsins. Eftir því sem fjármálakreppan (þótt ekki sé enn hægt að tala um efnahagskreppu er engum blöðum um það að fletta að fjármálakreppa ríkir) magnast hefur athyglin í æ ríkari mæli beinst að fjárfestingarbönkunum. Sérstaklega eftir að ljóst var að Bear Stearns átti sér ekki viðreisnar von, í mars á þessu ári, og ekki síður eftir atburði liðinnar viku þegar Lehman Brothers varð gjaldþrota og Merrill Lynch var bjargað frá gjaldþroti.

Margir hafa eflaust klórað sér í hausnum yfir öllum þeim hugtökum sem komið hafa fram í fréttaflutningi af fjármálakreppunni. Hvað er t.d. fjárfestingarbanki? Hver er munurinn á fjárfestingarbanka og viðskiptabanka? Hvernig stendur á því að fjárfestingarbankar hafa farið svo illa út úr ástandinu á mörkuðum en viðskiptabankar standa jafnvel sterkari eftir? Að minnsta kosti þegar litið er til markaðsstöðu, en vissulega hafa viðskiptabankar ekki farið varhluta af ástandinu.

Þjónusta og eigin viðskipti

Svarsins við síðustu spurningunni er í raun að leita í hinum fyrri þannig að það er kannski best að byrja á byrjuninni, þ.e. með því að svara spurningunni hvað er fjárfestingarbanki.

Hefðbundin starfsemi fjárfestingarbanka felst fyrst og fremst í þjónustu við fyrirtæki og oft einnig auðuga fjárfesta, sem á ensku eru oft nefndir high net-worth investors. Þessi þjónusta felst m.a. í ráðgjöf til viðskiptavina, fjármögnun, eignastýringu og miðlun en þess ber að geta að í íslensku er hugtakið miðlun notað um það sem í ensku kallast brokering annars vegar og trading hins vegar. Brokering er miðlun í hefðbundnum skilningi þess orðs, þ.e. bankinn er einfaldlega milliliður í viðskiptum tveggja aðila, en trading á við um þegar bankinn gerir viðskipti í umboði viðskiptavinar síns. Þá má ekki gleyma því að fjárfestingarbankar halda gjarnan úti öflugum greiningardeildum sem bæði stunda efnahags- og fyrirtækjagreiningar og verðmöt á fyrirtækjum, nokkuð sem ekki ætti að hafa farið framhjá þeim er fylgst hafa með íslenskum viðskiptafréttum undanfarin ár.

Glöggir lesendur taka ef til vill eftir að hingað til hefur ekki verið minnst á viðskipti fjárfestingarbanka fyrir eigin reikning og er ástæðan einföld. Það er í raun ekki svo langt síðan þeir fóru að stunda slík viðskipti af einhverri alvöru.

Upp úr aldamótunum síðustu reið Goldman Sachs á vaðið og hóf að leggja meiri áherslu á eigin viðskipti en áður hafði verið. Eigin viðskiptin reyndust sannkölluð gullnáma og því fylgdu hinir bankarnir á eftir en fram til þess tíma hafði sjóðstreymi þeirra fyrst og fremst byggst á þóknanatekjum auk einhverra vaxtatekna vegna fjármögnunar. Á móti kemur að eigin viðskiptum fylgir mun meiri áhætta en hefðbundinni fjárfestingarbankastarfsemi, nokkuð sem William Fall, forstjóri Straums, hefur margoft bent á, en þegar vel gengur eru þau líka mun arðbærari.

Annar markhópur

Munurinn á fjárfestingarbönkum og venjulegum viðskiptabönkum er margþættur. Rætur viðskiptabankastarfsemi liggja í því að taka við innlánum og lána féð áfram á hærri vöxtum en greiddir eru fyrir innlánin. Á meðan fjárfestingarbankar hafa einbeitt sér að þjónustu við fyrirtæki og auðuga einstaklinga hafa flestir verið velkomnir í viðskipti við viðskiptabanka.

Þar hafa þeir getað lagt inn sparnað sinn, greitt reikninga, keypt gjaldeyri, sent fé á milli landa og fengið fé að láni. Eftir því sem bankastarfsemi hefur þróast hafa viðskiptabankar fært sig æ lengra inn á sömu brautir og fjárfestingarbankar, t.d. með eignastýringu og miðlun. Í dag eru sennilega ekki mjög margir hreinræktaðir viðskiptabankar til í heiminum, þ.e. bankar sem eingöngu stunda inn- og útlánastarfsemi. Flestir bankar bjóða í dag upp á eins konar blöndu af viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi. Viðskiptabankar sinna flestum þeim verkefnum sem fjárfestingarbankar hafa tekið að sér, svo sem ráðgjöf og fjármögnun fyrirtækja og miðlun og greiningu. Þó er enn töluverður munur á fjárfestingar- og viðskiptabönkum.

Eins og áður segir eru markhópar þeirra töluvert mismunandi auk þess sem útlánastarfsemi leikur ekki jafnstórt hlutverk í starfsemi fjárfestingarbanka auk þess sem fjármögnun starfseminnar eru öðru vísi byggð upp. Fjárfestingarbankar mega ekki taka við innlánum og því þurfa þeir nær eingöngu á reiða sig á lánsfjármarkaði til þess að fjármagna starfsemi sína. Stærsti munurinn á fjárfestingar- og viðskiptabönkum felst þó ef til vill í nálgun hins opinbera til starfseminnar.

Lægra eiginfjárhlutfall

Almennt gilda mun strangari reglur um starfsemi viðskiptabanka en fjárfestingarbanka og eftirlit með viðskiptabönkum er mun stífara. Þetta skýrist m.a. af því að viðskiptabankar mega taka við fé almennings.

Þegar t.d. er litið til Bandaríkjanna er það eingöngu bandaríska fjármálaeftirlitið, SEC, sem hefur eftirlit með fjárfestingarbönkum en eftirlit með viðskiptabönkum er á könnu mun fleiri aðila. Sem dæmi má nefna seðlabankann og ábyrgðarstofnun innlána, FDIC. Eins og nærri má geta eykst krafan um gagnsæi eftir því sem eftirlitsaðilum fjölgar. Um leið geta fjárfestingarbankar tekið mun meiri áhættu, kröfur um eiginfjárstöðu þeirra eru mun vægari þegar viðskiptabankar eru annars vegar. Þannig má nefna að fyrir hvern dal í eigið fé eru eignir Goldman Sachs 22 dalir og hjá Morgan Stanley eru eignirnar 30 dalir á hvern dal í eigið fé. Hjá viðskiptabankarisum á borð við Citigroup og Bank of America er hlutfallið um 10 dalir í eignir á hvern dal.

Leiða má líkur að því að fyrst og fremst hafi hin mikla áhættusækni, t.d. mikil eigin viðskipti, orðið fjárfestingarbönkunum að falli. Þá hefur fjármögnunarstaða þeirra ekki hjálpað til þegar aðgengi að fjármagni á mörkuðum dróst saman. Viðskiptabankarnir búa að því að eiga innlán, nokkuð sem getur reynst ansi dýrmætt eftir því sem brælan eykst á mörkuðum.

Í hnotskurn
» Hefðbundin starfsemi fjárfestingarbanka felst fyrst og fremst í þjónustu við fyrirtæki og oft einnig auðuga fjárfesta.
» Fjárfestingarbankar taka ekki við innlánum sparifjáreigenda og eiga almennt ekki viðskipti við eignaminni einstaklinga.
» Þá sæta þeir mun minna eftirliti opinberra aðila og eru t.a.m. gerðar aðrar kröfur um eiginfjárhlutfall fjárfestingarbanka. Viðskiptabankar þurfa að halda því yfir 8%, en hjá fjárfestingarbönkum getur það verið mun lægra.