Heilbrigðisráðuneytið hefur endurnýjað samning við Heilsuverndarstöðina ehf. um rekstur 20 skammtímahvíldarrýma fyrir aldraða skjólstæðinga heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og 30 dagvistarrýma þar sem áhersla verður lögð á endurhæfingu.

Heilbrigðisráðuneytið hefur endurnýjað samning við Heilsuverndarstöðina ehf. um rekstur 20 skammtímahvíldarrýma fyrir aldraða skjólstæðinga heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og 30 dagvistarrýma þar sem áhersla verður lögð á endurhæfingu. Samningurinn var upphaflega gerður til sex mánaða og var tilraunaverkefni. Hann rann út um síðustu mánaðamót.

„Samningurinn hefur verið framlengdur fram undir áramót, eða á meðan verið er að meta hvernig til hefur tekist,“ segir Helgi Már Arthursson, upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytisins. Hann segir að þótt samningurinn hafi verið framlengdur tímabundið sé búið að ákveða að bjóða þjónustuna út. „Úboðið verður byggt á þeirri reynslu og upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið á þessum tilraunatíma. Það tekur auðvitað sinn tíma enda þarf að vanda til þess verks,“ segir Helgi Már. ejg