Selfoss færðist um 17 sentimetra til suðausturs við Suðurlandsskjálftann í maí síðastliðnum. Suðurglugginn greindi frá þessu í gær. Mælipunktar í Árborg, Ölfusi og í Hveragerði færðust allir til við skjálftana og er nú unnið að því að mæla upp á nýtt.

Selfoss færðist um 17 sentimetra til suðausturs við Suðurlandsskjálftann í maí síðastliðnum. Suðurglugginn greindi frá þessu í gær. Mælipunktar í Árborg, Ölfusi og í Hveragerði færðust allir til við skjálftana og er nú unnið að því að mæla upp á nýtt. Það er Verkfræðistofa Suðurlands sem sér um mælingarnar í samvinnu við Landmælingar Íslands, Vegagerðina og sveitarfélögin á Suðurlandi.

Gæti gengið til baka

Hið sama gerðist í skjálftunum árið 2000 en þá gekk færslan að hluta til baka. Að sögn Páls Bjarnasonar, tæknifræðings hjá Verkfræðistofu Suðurlands, má búast við því að færslan nú gangi einnig að hluta til baka. „Þetta er ekki neitt sem fólk finnur fyrir en hins vegar þarf auðvitað að mæla þetta upp á nýtt vegna ýmissa þátta, til dæmis lóðamarka.“

Land færðist til og auk þess reis Selfoss um sex sentimetra en land hefur bæði risið og sigið á einhverjum stöðum. Unnið verður að mælingum og leiðréttingu á mælipunktum á næstu vikum. freyr@24stundir.is