Akuryrkja Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri bíður nú eftir þurrki til að geta þreskt.
Akuryrkja Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri bíður nú eftir þurrki til að geta þreskt. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is VEL viðraði til kornræktar í sumar og horfur eru á að kornuppskera verði mjög góð. Víða var þurrt framan af sumri en nú hafa rigningar tafið þreskingu á Suðurlandi. Talið er víst að kornrækt muni aukast á komandi árum.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

VEL viðraði til kornræktar í sumar og horfur eru á að kornuppskera verði mjög góð. Víða var þurrt framan af sumri en nú hafa rigningar tafið þreskingu á Suðurlandi. Talið er víst að kornrækt muni aukast á komandi árum.

„Hafi einhvern tíma verið hagstætt að rækta korn þá er það nú, þrátt fyrir hækkað áburðarverð,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri og formaður Landssambands kornbænda. „Verð á kjarnfóðri og kornvöru hingað til lands hefur hækkað um nálægt 100% á einu ári. Við þær aðstæður er kornræktin góður valkostur. Ég trúi því að innlend fóðuröflun eigi bara eftir að aukast ef verð á fóðurvörum verður svona áfram.“

Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri á Korpu og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, sagði að í heild hafi sumarið verið kornræktinni gott. Tvö óveður síðsumars voru þó til óþurftar en mjög misjafnt hvernig þau komu niður. Fyrra veðrið, 29. ágúst, kom á akrana óskorna og olli skaða á vesturhelmingi landsins. Það síðara, aðfaranótt 17. september, fór yfir landið allt og olli víða tjóni. Jónatan sagði að þá hafi töluvert af korni verið komið í hús.

Ingvar Björnsson, ráðunautur hjá Búgarði á Akureyri, sagði að kornvöxtur hafi verið mjög góður í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Hann taldi að byggi hafi verið sáð í 600–700 hektara í vor og áætlaði að aukningin væri 15–20% frá fyrra ári. Ingvar taldi að þetta kornár hafi verið svipað og árið 2004 sem var afskaplega gott. Nokkuð af korni tapaðist í hvassviðri eftir miðjan september. Ingvar taldi að bændur á hans svæði hafi verið búnir að þreskja ríflega helminginn þegar veðrið brast á. Um þriðjungurinn af því sem eftir stóð, besta korninu sem komið var lengst, tapaðist. Ýmist brotnuðu öxin af stönglunum eða kornið slóst úr öxunum. Þrátt fyrir það er góð meðaluppskera komin í kornhlöðurnar, að mati Ingvars. Bændur í umdæmi Búgarðs fá að meðaltali 4½–5 tonn af korni af hverjum hektara. Af bestu ökrunum fást yfir 6 tonn af þurru korni á hektara. Landsuppskeran hefur verið að meðaltali 3,2–3,3 tonn. „Ég á von á að þetta aukist verulega á næstu árum,“ sagði Ingvar um kornræktina.

Ólafur á Þorvaldseyri sagði að mikil bleytutíð í september hafi tafið þreskingu á Suðurlandi. Svo mikið hefur rignt að síga þarf úr ökrunum í einn til tvo daga svo hægt sé að fara um þá á þreskivélum.

„Auðvitað sér á korninu, það hallar töluvert en fáum við blástur og þurrk í nokkra daga verður hægt að skrapa þetta upp að mestu leyti. Þetta er ekkert tapað,“ sagði Ólafur.

Í hnotskurn
» Vitað er að landnámsmenn fluttu með sér korn til sáningar hingað til lands og ræktuðu bygg.
» Mörg örnefni á borð við Akur, Akranes og Akureyri bera akuryrkju til forna vitni. Orðin „gerði“ og „tröð“ í örnefnum bera kornrækt einnig vitni.
» Kornleifar hafa m.a. fundist við fornleifauppgröft á Bergþórshvoli í Landeyjum og Gröf í Öræfum.
» Talið er að kornuppskera hafi aldrei orðið mikil hér á öldum áður og korn var löngum dýr munaðarvara. Innflutningur korns jókst mjög eftir aldamótin 1300 og verðið lækkaði.