Óvæntur endir Nemendur á alþjóðlegu sjávarspendýranámskeiði á Húsavík komust í feitt þegar andarnefja drapst í Eyjafirði um helgina.
Óvæntur endir Nemendur á alþjóðlegu sjávarspendýranámskeiði á Húsavík komust í feitt þegar andarnefja drapst í Eyjafirði um helgina. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ævintýrið heldur áfram og vísindamenn standa á gati. Tvær andarnefjur sáust við Akureyri í gær til viðbótar við þær þrjár sem vitað var um. Þær voru reyndar fjórar en ein drapst í vikunni.

Ævintýrið heldur áfram og vísindamenn standa á gati. Tvær andarnefjur sáust við Akureyri í gær til viðbótar við þær þrjár sem vitað var um. Þær voru reyndar fjórar en ein drapst í vikunni.

Fyrir nokkrum árum var varpað fram hugmynd um einhvers konar sædýragarð við Pollinn á Akureyri. Er ekki lag að dusta rykið af hugmyndunum núna? Sum dýrin þarf ekki einu sinni að hafa fyrir því að sækja. Þau koma sjálf.

Kunningi minn, sem marga fjöruna hefur sopið í skemmtanabransanum og kallar ekki allt ömmu sína, brá sér í Sjallann á laugardagskvöldið var en flýtti sér út aftur þegar hann varð var við „erotískan glaðning“ á sjónvarpsskjá í húsinu. Segir það hafa verið gróft klám og með því svæsnara sem hann hafi séð. Líklega er best að lýsa því yfir að viðkomandi kunningi minn var allsgáður og akandi, eins og segir í dægurlagatextanum.

Samkvæmt auglýsingu í Dagskránni í síðustu viku var það agent.is sem bauð upp á „Dirty night“ í Sjallanum þetta kvöld. M.a. var auglýst sjóðandi undirfatasýning, stelpur dansandi í búrum og erotískur glaðningur á tjaldinu. „Sleipiefni og smokkar með hverjum miða. Þorir þú?“ stóð jafnframt í auglýsingunni. Einkar smekklegt. Eða hvað?

Jafnréttisstofa hefur sent Dagskránni bréf þar sem athugasemdir eru gerðar við birtingu áðurnefndrar auglýsingar um kvöldið „sóðalega“ í Sjallanum.

Ung kona við Eyrarveg vaknaði upp nótt eina í vikunni við það að maður með vasaljós stóð við rúmgaflinn. Sá hafði brotist inn. Konan segist, í samtali við fréttavef Vikudags, hafa öskrað og manninum brugðið svo mjög að hann öskraði á móti og hljóp út úr húsinu. Konan hringdi í laganna verði og þeir höfðu fljótlega hendur í hári mannsins vegna þess að hann hafði skilið bílinn sinn eftir fyrir utan hús konunnar með lyklunum í, en flúði á tveimur jafnfljótum eftir að hún flæmdi hann út.

Áhugavert málþing verður í Ketilhúsinu í dag kl. 13–16, á vegum verkefnisstjórnarinnar 50+ og er yfirskriftin Aldur – akkur fyrirtækja . Flutt verða erindi um rannsókn á áhrifum stóriðjuframkvæmda á 50 ára og eldri og um símenntun þessa aldurshóps.

Heiða Karlsdóttir, ritari bæjarstjórans á Akureyri, átti 25 ára starfsafmæli í vikunni. Sigrún Björk Jakobsdóttir er sjötti bæjarstjórinn sem hún starfar fyrir; hinir eru Helgi H. Bergs, Sigfús Jónsson, Halldór Jónsson, Jakob Björnsson og Kristján Þór Júlíusson.

Skapti Hallgrímsson