Afli Aliminkurinn sem Reynir Bergsveinsson veiddi er ofar en fyrir neðan er íslenskur villiminkur, báðir eru steggir.
Afli Aliminkurinn sem Reynir Bergsveinsson veiddi er ofar en fyrir neðan er íslenskur villiminkur, báðir eru steggir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
MINKUM hefur stórfækkað um miðbik Árnessýslu samkvæmt tölum Reynis Bergsveinssonar minkaveiðimanns og höfundar minkasíunnar.

MINKUM hefur stórfækkað um miðbik Árnessýslu samkvæmt tölum Reynis Bergsveinssonar minkaveiðimanns og höfundar minkasíunnar. Frá síðustu áramótum hafa veiðst 112 fullorðnir minkar og 28 hvolpar í minkasíur í Bláskógabyggð, Grímsnesi, Grafningshreppi og í Ölfusi. Minkur sem Reynir telur að sé aliminkur, stór og kolsvartur, kom í minkasíu í Grímsnesinu.

„Það er óséð frá hvaða minkabúi hann getur verið og ekki vitað hve lengi hann er búinn að vera úti í náttúrunni, mér vitanlega er ekkert minkabú nálægt veiðistaðnum,“ sagði Reynir. Hann sagðist ekki hafa orðið þess var að dýr væru að sleppa úr minkabúum á Suðurlandi. Þessi minkur var fyrsta eða annað alidýrið af 500-600 minkum sem Reynir hefur veitt á svæðinu.

Reynir segir að aldurshlutföll í aflanum séu ólík eftir svæðum. Við Þingvallavatn var hlutfall hvolpa mjög hátt og lítið af fullorðnum dýrum. Annars staðar var því þveröfugt farið. „Þar sem fyrst og fremst veiðast hvolpar er af nógu að taka,“ sagði Reynir.

Tilrauna- og rannsóknaverkefnið Ölfus–Öxará–Grímsnes, sem varðar notkun minkasía í Ölfusi, upp með Soginu, um allt Þingvallavatn og austur um Grímsnes og hófst 2005, hefur nú verið framlengt til ársloka 2008. Verkefnið styrkja Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Þingvallaþjóðgarður í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu.

„Það er algjörlega sannfæring mín að við eigum eftir að komast miklu lengra í þessu tilraunaverkefni en staðan í dag gefur til kynna,“ sagði Reynir. „Við náum sífellt betri tökum á vandanum. Til þess þarf þekkingu og skilning á eðli og hegðun minksins.“