Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, setti fram áhugaverða hugmynd í grein hér í blaðinu í gær; að einkavæða einstakar virkjanir sem nú eru í almannaeigu.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, setti fram áhugaverða hugmynd í grein hér í blaðinu í gær; að einkavæða einstakar virkjanir sem nú eru í almannaeigu.

Þingmaðurinn segir að ekki þyrfti að vera um varanlegt framsal að ræða; til dæmis mætti selja rekstur Kárahnjúkavirkjunar á leigu til 40 ára og aðrar virkjanir til 20 eða 30 ára, en svo fengi ríkið þær að nýju til rekstrar eða endurútboðs.

Rök Helga fyrir slíkri sölu eru þrenns konar; að losa um fjármuni ríkisins, laða erlenda fjárfestingu að íslenzkum orkuiðnaði og hvetja til framrásar í orkuiðnaði og útrás með tilkomu nýrra fjárfesta og fyrirtækja.

Þetta eru sams konar rök og Morgunblaðið hefur fært fram með einkavæðingu orkuframleiðslufyrirtækja.

Eins og Helgi Hjörvar bendir á, hefur skapazt grundvöllur fyrir slíka einkavæðingu með nýrri löggjöf um orkumarkaðinn, þar sem skýrt er kveðið á um að orkulindir í eigu hins opinbera megi ekki framselja varanlega og dreifiveitur skuli sömuleiðis vera í almannaeigu. Hins vegar skiptir engu meginmáli hver á fyrirtækin sem framleiða orkuna. Með því að frelsa þau úr opinberu eignarhaldi skapast grundvöllur fyrir orkuútrás, sem þarf ekki að verða eins pólitískt umdeild og t.d. áformin um REI og Landsvirkjun Power hafa verið.

Helgi Hjörvar hefur velt upp nýjum fleti á málinu. Það er athyglisvert að þessi rödd heyrist nú úr Samfylkingunni og bendir til að meiri samhljómur kunni að vera innan stjórnarflokkanna um málið en margur hélt.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra tekur í Morgunblaðinu í dag vel í hugmyndina, en segir að einkavæðingaráform í orkugeiranum hafi ekki verið rædd í ríkisstjórn.

Er ekki kominn tími til?