„Áætlanir bæjaryfirvalda eru keyrðar í gegn á ógnarhraða, en við í íbúasamtökunum hér á Kársnesi erum mjög á móti fyrirhuguðum skipulagsbreytingum,“ segir Þórarinn Ævarsson, varaformaður í íbúasamtökunum Betri byggð á Kársnesi.

„Áætlanir bæjaryfirvalda eru keyrðar í gegn á ógnarhraða, en við í íbúasamtökunum hér á Kársnesi erum mjög á móti fyrirhuguðum skipulagsbreytingum,“ segir Þórarinn Ævarsson, varaformaður í íbúasamtökunum Betri byggð á Kársnesi. „Landfyllingar fyrri ára hafa t.d. ekki farið í umhverfismat en það er í sjálfu sér algerlega siðlaust, en það skal tekið fram að við erum mjög á móti frekari landfyllingum,“ segir Þórarinn.

„Hugmyndirnar núna snúa að því að búa til 13 hektara landfyllingar til viðbótar, en bæjaryfirvöld vísa til 30 ára gamalla rannsókna á umhverfisáhrifum,“ segir Arna Harðardóttir, formaður samtakanna, og bætir við að Reykjavíkurborg hafi einnig gagnrýnt hugmyndina um frekari landfyllingu.

Birgir H. Sigurðsson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs í Kópavogi, segir fund sem haldinn verður kl. 20 í kvöld vera innlegg í umræðu fyrir samvinnunefnd um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. „Við munum kynna hugmyndir um breytingu á svæðisskipulagi fyrir Kópavog vestur,“ segir hann og bætir við að fyrirspurnum verði svarað eftir á.

„Lögin segja til um hvernig samráði skuli háttað við íbúa í skipulagsvinnu sem þessari og höfum við haldið þau í hvívetna,“ segir Birgir en tekur fram að það hafi gengið misvel. Þórarinn segir að íbúasamtökin hafi hins vegar verið ósátt við samráðsleysi bæjaryfirvalda.

„Það er stutt í mótmælaborðana ef ekki verður hlustað,“ segir hann.

asab@24stundir.is