KAUPÞING Útibúið í Svíþjóð lánaði fjárfestum fé til kaupa á fjármálaafurðum sem bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers gaf út.
KAUPÞING Útibúið í Svíþjóð lánaði fjárfestum fé til kaupa á fjármálaafurðum sem bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers gaf út. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Guðmund Sverri Þór og Þorbjörn Þórðarson KAUPÞING banki í Svíþjóð lánaði á tímabilinu frá nóvember 2006 til apríl 2007 þarlendum fjárfestum fé til kaupa á fjármálaafurðum sem bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers gaf út.

Eftir Guðmund Sverri Þór

og Þorbjörn Þórðarson

KAUPÞING banki í Svíþjóð lánaði á tímabilinu frá nóvember 2006 til apríl 2007 þarlendum fjárfestum fé til kaupa á fjármálaafurðum sem bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers gaf út. Veð fyrir lánunum voru umræddar fjármálaafurðir en þegar Lehman óskaði eftir greiðslustöðvun í liðinni viku urðu þau veð einskis virði. Frá þessu greinir sænska viðskiptablaðið Dagens Industri [DI] í gær.

Að sögn DI var það norska eignastýringarfyrirtækið Acta sem seldi bréfin og mun það hafa selt bréf að andvirði 1 milljarð sænskra króna. Alls hafi tæplega 2.000 sænskir og norskir fjárfestar keypt bréf og fjármagnaði hluti Svíanna kaupin með lánsfé frá Kaupþingi. Hugsanlegt er að Kaupþing muni gera veðköll hjá þeim sem lánin fengu, þ.e. óska eftir frekari veðum, samkvæmt frétt DI.

Áhættan ekki mikil

„Um er að ræða sjálfskuldarábyrgðir þannig að ef eignirnar tapast eru viðkomandi skuldunautar ábyrgir fyrir greiðslum,“ segir Jónas Sigurgeirsson, forstöðumaður samskiptasviðs Kaupþings. Veðköll eigi því ekkert erindi í þessa umræðu.

Undir venjulegum kringumstæðum eru slíkar skuldir tryggðar með eignum viðkomandi skuldunautar og hefðbundnar innheimtuaðgerðir fara fram. Áhætta Kaupþings ætti því að vera mjög takmörkuð. Í versta falli, ef enginn þessara skuldunauta er borgunarmaður fyrir lánunum, gæti tap Kaupþings orðið umtalsvert, mest 14 milljarðar króna miðað við gengi sænsku krónunnar í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi var fjöldi fjárfestanna nærri 4.000. Svo áhættan er dreifðari.

Peter Borsos, upplýsingafulltrúi Kaupþings í Svíþjóð, staðfestir við DI að lánin hafi verið veitt en segir enga ákvörðun hafa verið tekna um næstu skref. „Einhvern veginn munum við verða í sambandi við viðskiptavini okkar,“ segir hann og bætir við að bankinn líti ekki á þetta sem mikla áhættu. Vextir á lánunum hafi verið greiddir fyrirfram en vandamál geti komið upp á gjalddaga.

Borsos vill ekki gefa upp hversu háar fjárhæðir um ræðir en leggur áherslu á að Acta hafi ráðlagt kaupendum að taka lán. Samkvæmt upplýsingum frá höfuðstöðvum Kaupþings var upphæðin rétt rúmur milljarður sænskra króna.

„Spurningin er hvað kemur til baka af skuldabréfum Lehman. Ef ekkert kemur inn og enginn af þessum fjögur þúsund kaupendum getur greitt lánin, sem er mjög ólíklegt, gæti tap Kaupþings auðvitað orðið eitthvert,“ segir Jónas.

Í hnotskurn
» Kaupþing er með starfsemi í þrettán löndum. Þeirra á meðal eru öll Norðurlöndin, Belgía, Lúxemborg, Sviss, Bretland og Bandaríkin.
» Kaupþing er sjöundi stærsti bankinn á Norðurlöndunum og í lok júní 2008 voru 3.207 starfsmenn hjá bankanum og dótturfélögum.
» Skuldir Lehman Brothers og tengdra félaga við íslensku viðskiptabankana nema samtals um 182,6 milljónum evra, andvirði um 25 milljarða króna.
» Hlutur Straums-Burðaráss er 65 milljónir evra.