Feðgar Arnar ásamt Úlfari Áka og Felix Flóka. Móðir þeirra, Guðný Camilla Aradóttir, var í vinnunni.
Feðgar Arnar ásamt Úlfari Áka og Felix Flóka. Móðir þeirra, Guðný Camilla Aradóttir, var í vinnunni. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is „ÞETTA er bara redding frá degi til dags,“ segir Arnar Júlíusson um gæslu átta ára sonar síns að loknum skóla klukkan tvö og þar til foreldrarnir koma heim úr vinnu um klukkan fimm.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„ÞETTA er bara redding frá degi til dags,“ segir Arnar Júlíusson um gæslu átta ára sonar síns að loknum skóla klukkan tvö og þar til foreldrarnir koma heim úr vinnu um klukkan fimm.

Felix Flóki Arnarsson er í 3. bekk Langholtsskóla. Fjölskyldan fluttist heim frá Danmörku í sumar og þar vandist hann því að fara beint úr skólanum á frístundaheimili. Í Reykjavík er öldin önnur.

„Þetta er mikil breyting fyrir okkur,“ segir pabbi hans og bætir við að staðan sé mjög slæm í skólanum, því mörg börn séu í sömu stöðu. „Við höldum að það sé borin von að hann komist inn á frístundaheimili.“

Ekki vanur að vera einn

Foreldrarnir eiga erfitt með að hlaupa úr vinnunni til að vera með stráknum en Arnar segir að hann geti reyndar stundum hagrætt vinnutíma sínum. Móðurafi stráksins vinni til hálffimm og hann hlaupi oft í skarðið, nái í Úlfar Áka, sem sé þriggja ára, á leikskóla og fari svo heim, þar sem Felix Flóki bíði. „Það er mjög erfitt að þurfa allt í einu að horfa upp á strákinn einan heima,“ segir Arnar og áréttar að drengurinn sé alls ekki vanur því. „Mér liði miklu betur að vita af honum á öruggum stað en að hann hringi á ákveðnum tíma til þess að láta okkur vita hvar hann sé. Hann er bara átta ára barn og á ekki að þurfa að taka ákvörðun um hvar hann er hverju sinni.“

Arnar segir ljóst að bæta verði kjör starfsfólksins sem vinni mjög mikilvægt uppeldisstarf. Á leikskólunum sé margt hugsjónafólk, sem foreldrar treysti fyrir börnum sínum og meta verði vinnu þess að verðleikum.

Borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon, formaður ÍTR, segir að góður árangur hafi náðst á nýliðnum dögum og vikum við að vinna á biðlistum frístundaheimila borgarinnar „en betur má ef duga skal,“ segir hann.

Kjartan bendir á að eftirspurn eftir plássi á frístundaheimilunum hafi aukist ár frá ári og nú hafi tekist að útvega ríflega 2.000 börnum pláss. Áfram verði unnið á sömu braut. „Við lítum á það sem markmið okkar að leysa vanda allra þeirra barna sem hafa sótt um,“ segir hann.

Um 750 börn | 4