Víkverji stundaði mikið fótbolta á unglingsárunum, öll kvöld voru notuð til að sparka. Stundum fram undir miðnætti. Það voru bara vesalingar sem slöppuðu af á kvöldin. Og kannski stelpur.

Víkverji stundaði mikið fótbolta á unglingsárunum, öll kvöld voru notuð til að sparka. Stundum fram undir miðnætti. Það voru bara vesalingar sem slöppuðu af á kvöldin.

Og kannski stelpur. Eitt vissi Víkverji á þessum árum, í upphafi hvolpavitsins, að stelpur voru ekki alslæmar en þær gátu ekki spilað fótbolta. Þær höfðu þetta ekki í sér, boltinn var of stór fyrir þær og svo hittu þær aldrei markið, kunnu ekki að sóla, þoldu ekki að stjakað væri við þeim.

Í staðinn fyrir að bölva fóru þær að grenja, sem gengur ekki í almennilegum fótboltaleik.

Eða hefðu grenjað, þær létu þetta alveg eiga sig og vildu víst frekar vera í einhverjum saklausari leikjum þar sem minna reyndi á kraftana. Einhverju dúkkustandi eða bara eitthvað að blaðra saman.

Heimurinn er á hvolfi. Eitt mesta áfallið sem karlmennskulund Víkverja hefur orðið fyrir er landsleikur kvennaliðsins íslenska við Slóvena í sumar. Allir vita að leikurinn endaði með stórsigri, slóvensku stelpurnar voru burstaðar. Alveg rótburstaðar! Um þetta leyti var ástandið þannig á karlalandsliðinu að Víkverji gerði það sama og fleiri hetjur, hann grét yfir örlögum þess en auðvitað í laumi. Maður er nú engin stelpa.

En af rælni fór hann á leikinn við Slóvena og varð óskaplega hissa, stelpurnar gátu vel spilað. Þær voru satt að segja ótrúlega góðar. Betri en Víkverji var sjálfur. Miklu betri.

Tilfinningarnar voru blendnar, má aldrei neitt vera óbreytt, geta stelpur allt? Er hvergi stöðugleiki? Víkverji er alveg viss um að þær gátu ekki neitt þegar hann var ungur, kannski er þetta annað kvenkyn.

Nóg um það, áfram stelpur, þið getið vel unnið Frakkana aftur! Auðvitað, þið eruð stelpurnar okkar.