Þrýstingur Robert S. Mueller, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, situr fyrir svörum hjá dómsmálanefnd Bandaríkjaþings í síðustu viku
Þrýstingur Robert S. Mueller, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, situr fyrir svörum hjá dómsmálanefnd Bandaríkjaþings í síðustu viku — Reuters
Eftir Guðnýju Camillu Aradóttur camilla@mbl.is FYRIRTÆKIN Fannie Mae, Freddie Mac, Lehman Brothers og AIG sæta nú rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, vegna mögulegra fjársvika. Hátt settir yfirmenn fyrirtækjanna verða einnig rannsakaðir.

Eftir Guðnýju Camillu Aradóttur

camilla@mbl.is

FYRIRTÆKIN Fannie Mae, Freddie Mac, Lehman Brothers og AIG sæta nú rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, vegna mögulegra fjársvika. Hátt settir yfirmenn fyrirtækjanna verða einnig rannsakaðir.

Á vef BBC segir að á undanförnu ári, eftir að fasteignamarkaðurinn í Bandaríkjunum tók dýfu, hafi FBI hafið almenna rannsókn á fjármálageiranum. Bæði FBI og stjórnvöld séu undir miklum þrýstingi vegna þeirra gífurlega háu ábyrgða sem ríkið hefur lagt fram til að rétta markaðinn við. Kostnaður við það lendi á skattgreiðendum.

Fyrirtækin fjögur sem nú eru til rannsóknar voru í hringiðu atburðarásarinnar síðustu tíu daga sem endaði með uppstokkun á Wall Street. Ónafngreindur fulltrúi Bandaríkjastjórnar segir á vef New York Times að það sé rökrétt að þessi fyrirtæki séu rannsökuð vegna þeirra fjölmörgu spurninga sem vaknað hafi í kringum endalok þeirra. Heimildamaður BBC segir að kannað yrði hvort starfsmenn fjármálafyrirtækja hefðu viljandi villt fyrir um fyrir fjárfestum um fjárhagslegan styrk fyrirtækjanna.

Robert S. Muller, forstjóri FBI, sagði fyrir þingnefnd í síðustu viku að slíkum rannsóknum hjá FBI sé beint að fyrirtækjum sem mögulega hafi gefið rangar upplýsingar í ferlinu sem leiddi til hruns fjármálamarkaða. Hann sagði FBI munu ganga eins langt og nauðsynlegt reynist til að sakfella þá sem beri ábyrgð á hvernig fór. Þeir hljóti þá refsingu sem þeir verðskuldi.

Freddie Mac, Fannie Mae og AIG var öllum bjargað af bandaríska ríkinu og stjórnin tilkynnti nýlega um 700 milljarða dollara sjóð sem væri ætlað að bjarga fjármálageiranum.

Í hnotskurn
» Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur nú 26 fjármálafyrirtæki í rannsókn.
» FBI er með 1400 fjársvikamál tengd íbúðalánum í rannsókn
» Bandaríkjastjórn hefur lofað allt að 1000 milljörðum dollara til eflingar fjármálamarkaða eftir hremmingar undanfarinna vikna