Guðmundur Guðni Guðmundsson fæddist á Ísafirði 22. maí 1912. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 3. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðmundur Guðnason, sjómaður á íslenskum og norskum skipum, f. á Geirastöðum í Bolungarvík 27. nóv. 1876, og Anna Þórðardóttir saumakona, f. á Kleifum í Seyðisfirði við Djúp 20. des. 1873, d. í Reykjavík 6. mars 1956. Systir Guðmundar Guðna var Guðrún húsmóðir í Reykjavík, f. á Ísafirði 23. nóv. 1906, d. 16. ágúst 1984. Bræður sammæðra eru Sveinn Ólafsson, vélstjóri í Reykjavík, f. á Kleifum í Seyðisfirði við Djúp 10. sept. 1890, d. 24. des. 1961, og Auðunn Guðmundur Árnason, bóndi á Dvergasteini í Álftafirði við Djúp, f. á Tjaldtanga í Folafæti við Djúp 14. okt. 1901, d. 30. júní 1991. Faðir Guðmundar Guðna flutti til Noregs, kvæntist og átti börn þar.

Sonur Guðmundar Guðna og Guðmundínu Bjarnadóttur, f. 16. maí 1911, er Úlfar Snæfjörð Ágústsson, framkvæmdastjóri á Ísafirði, f. á Ísafirði 3. júlí 1940. Kvæntur Jósefínu Guðrúnu Gísladóttur, f. á Ísafirði 24. jan. 1940. Þau eiga fjögur börn, Gísla, Úlf og Axel Guðna (einn sonur er látinn) og 5 barnabörn.

Guðmundur Guðni kvæntist Ástu Svanhvítu Þórarinsdóttur, f. á Vatnsenda í V-Hún. 26. ágúst 1913. Bjuggu þau mestan sinn búskap í húsi sínu við Langholtsveg í Reykjavík. Börn þeirra eru: 1) Þórarinn Bjarki skrifstofumaður, f. í Reykjavík 18. ágúst 1942, kvæntur Kristínu Líndal kennara, f. í Reykjavík 29. okt. 1945. Þau eiga tvær dætur, Ástu og Önnu Mjöll, og 4 barnabörn, skildu. Kvæntist Álfheiði Alfreðsdóttur hárgreiðslumeistara, f. á Djúpavogi 26. okt. 1941. Hún átti tvö börn fyrir, sonur látinn. 2) Anna Sigrún kennari, f. í Reykjavík 7. júlí 1946, d. 17. apríl 1990, gift Johan Julnes skólastjóra og rithöfundi, f. í Aukra í Noregi 17. júní 1944. Þau bjuggu í Aukra. Þau eiga 3 börn, Hildu, Leif og Jenny, og 8 barnabörn.

Guðmundur Guðni var í Kvöldskóla iðnaðarmanna á Ísafirði, einn vetur í Kennaraskóla Íslands og tvo vetur í Iðnaðarskóla Keflavíkur. Hann stundaði ýmis störf fyrir vestan eftir að hann varð sjálfs síns herra, svo sem landbúnaðarstörf, sjósókn á trillum og farkennslu við Bjarnarfjörð á Ströndum. Eftir að hann kom til Reykjavíkur vann hann ýmsa verkamannavinnu, t.d. í kringum herinn í Reykjavík og Keflavík en 1956 byrjar hann hjá trésmiðjunni Víði í Reykjavík hjá Guðmundi blinda Guðmundssyni og var þar uns hann hætti sökum aldurs rúmlega sjötugur. Hann var virkur í félagsmálum og á ungdómsárum sínum við Drangsnes stofnaði hann stúku og verkalýðsfélag og tók þátt í störfum leikfélagsins á staðnum. Eftir að hann kom til Reykjavíkur var hann virkur í Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík, Kvæðamannafélaginu Iðunni og Ættfræðifélaginu (heiðursfélagi) einnig var hann í Rithöfundasambandinu. Hans aðaláhugamál voru ættfræði, mannfræði, sagnfræði og ritstörf. Hann var ágætlega hagmæltur og orti nokkur ljóð og urmul af tækifærisvísum sem sumt hefur birst á prenti í bókum og blöðum. Hann var að yrkja fram á síðasta dag lífs síns. Bækur hans sem gefnar voru út: „Vaskir menn“ 1968 (sagnfræðilegir þættir um menn og málefni) og er í vinnslu til endurútgáfu. „Saga Fjalla–Eyvindar“ 1970, endurútgefin 2004, og „Svignaskarð“ 1975. Jörðin var komin í eigu Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík, sem hugðist nota hana undir orlofsbúðir félagsmanna og var því gefið út vandað kort af jörðinni með örnefnum sem höfundur fékk frá fyrri eigendum og þáverandi ábúendum.

Auk þessara bóka var búið að tölvutaka verkið „Djúpmenn“ (allir sem vitað var að fæðst höfðu í Ísafjarðardjúpi), en fyrirtæki útgefanda lenti í ósætti og gjaldþroti og disklingar lentu á vergangi. Hluti þess hefur verið prentaður út og er í eigu Ættfræðifélagsins. Stærsta verkið sem hann vann á vegum ættfræðinnar var „Eyrarætt“, niðjatal Ólafs Jónssonar lögsagnara í Eyri í Seyðisfirði við Djúp. Verkið reyndist of viðamikið fyrir tíma borðtölvanna og ættfræðiforritanna en löngu seinna tók Ættfræðistofan sig til og gaf út „Vigurættina“ sem er niðjatal Þórðar, elsta sonar Ólafs, og varð það 10 bindi. Eldskírn hans í útgáfu ættfræðirita var þegar hann aðstoðaði höfund og útgefanda Arnardalsættar við að safna myndum og fleira hjá sínum nánustu, þá kviknaði sá neisti sem aldrei slokknaði hjá honum fyrr en lífsneistinn slokknaði að lokum.

Útför Guðmundar Guðna fer fram frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Afi og amma á Langholtsveginum spiluðu stórt hlutverk í lífi okkar systra þegar við vorum að alast upp. Þau pössuðu okkur oft og um tíma bjuggum við í risinu hjá þeim. Risið var eins og ævintýraveröld, alls kyns spennandi hlutir að skoða og upplifa, og hægt að skríða inni í súðinni milli herbergja. Afi var iðulega við ritvélina sína en leit þó stundum upp og gaf okkur sykurmola. Góðar minningar eru einnig tengdar fjöruferðum og bíltúrum með afa og ömmu í grænu bjöllunni. Það er óhætt að segja að minningar barnæskunnar eru nátengdar minningum um ömmu og afa á Langholtsveginum. Frá unga aldri stóð hugur afa til fræðimennsku, skrifa og skáldskapar en hann gerðist iðnverkamaður til að sjá fyrir sér og sínum. Hann náði þó að sinna vel hugðarefnum sínum meðfram launavinnunni og fannst okkur systrum sem hann nýtti hverja lausa stund til skrifta. Afi var alþýðuhetja, ólst upp við þröngan kost og átti ekki von á því að lifa langa ævi. Við höfum oft brosað að því þegar hann var ítrekað að búast við ævilokunum handan við hornið. Hann bjóst ekki við að verða fertugur, hann átti ekki von á því að lifa af heilablóðfallið, háskólagráður barnabarnanna, brúðkaup þeirra, fæðingu barnabarnabarnanna, aldamótin eða aðrar slíkar vörður á lífsins vegi. En 96 ára varð hann og var ennþá að fara gangandi í sund um níræðisaldur, ótrúlega sprækur. Ekki tókst honum heldur að verða gráhærður nema að litlu leyti. Það er margt í lífsferli afa sem gerir hann að hetju í okkar augum en jafnljóst er það að slíkt hefur aldrei hvarflað að honum.

Ef það er eitthvað sem lýsir afa þá er það að hann var orðsins maður og þá hins skrifaða orðs. Amma talaði reyndar oft fyrir þau bæði og afi bara skrifaði og skrifaði. Afi samdi margar tækifærisvísur og fengum við og síðar börnin okkar að njóta þeirra. Honum fannst mjög gaman að því þegar blöðin birtu eftir hann vísur eða greinar og hafði gaman af allri vegtyllu.

Þrátt fyrir að hafa ekki mikla trú á því að hann yrði langlífur var fróðleiksþorstinn slíkur að hann hélt áfram að læra nýja hluti og að vera meðvitaður um umhverfi sitt fram á síðasta dag. Þegar helsta vinnutækið hans, ritvélin, varð úrelt þá lærði hann bara á tölvu og að nota ritvinnsluforrit. Hann las blöðin af ótrúlegri athygli fram á síðustu ár og fylgdist þannig með mönnum og málefnum. Hann lagði sig fram um að reyna að skilja hvað verðbréfamarkaður væri og fjárfestingasjóður og fleiri slíkar nútímastærðir. Þegar sjónin dapraðist og hann hætti að geta lesið var stutt í andlátið og lýsir það því kannski best hvað skrif skiptu hann miklu máli.

Honum var mjög annt um afkomendur sína og vildi fylgjast grannt með þeim og sérstaklega hvernig lærdómurinn gekk. Það var einnig sérstakt hversu opinskátt hann gat rætt við okkur barnabörnin um lífið og tilveruna og góð ráð fylgdu ævinlega með. Hann var oft glettinn, hreinskilinn en yfirvegaður.

Við þökkum afa kærlega fyrir allar sögurnar, vísurnar og umhyggjuna. Minningin lifir áfram.

Ásta og Anna Mjöll.