Tæknin Eftir því sem farsímarnir bjóða upp á fleiri möguleika á netnotkun og gagnaflutningum er hættara við háum símreikningum - ekki síst þegar símarnir eru notaðir í útlöndum.
Tæknin Eftir því sem farsímarnir bjóða upp á fleiri möguleika á netnotkun og gagnaflutningum er hættara við háum símreikningum - ekki síst þegar símarnir eru notaðir í útlöndum. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir því sem farsímar verða tæknilega fullkomnari virðist hættan á háum símreikningum aukast...ekki síst þegar þeir eru notaðir í útlöndum.

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur

ben@mbl.is

Háir farsímareikningar eftir dvöl í útlöndum eru engin nýlunda en að þeir skipti hundruðum þúsunda er sennilega eitthvað sem fæstir eiga von á. Undanfarið hafa slíkir reikningar þó æ oftar dottið inn um póstlúgur grunlausra farsímanotenda.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir ástæðuna þá tækni sem margir nýrri símar búa yfir. „Þeir eru mjög góðir til að skoða netið, senda og skoða tölvupóst og annað slíkt. Sum símtækin eru í rauninni svo góð að fólk nánast liggur á netinu, án þess að velta fyrir sér hversu mikið það kostar. Þannig eru fjölmörg dæmi um að fólk hafi stofnað til símaviðskipta fyrir tugi eða jafnvel hundruð þúsunda án þess að átta sig á því.“

Bíómyndin plássfrek

Hrannar segir að kostnaðurinn ráðist af því hversu miklum gögnum er hlaðið niður í símann, skoðuð í honum eða send frá honum. Í hvert sinn sem gögn eru send í eða úr símanum verði til kostnaður. „Innanlands er þetta í fæstum tilvikum vandamál því ýmsar góðar og ódýrar þjónustuleiðir er í boði. Ef viðkomandi er hins vegar staddur í útlöndum getur kostnaðurinn verið miklu meiri. Tölvupóstur með mynd sem notandinn skoðar í tækinu sínu getur kostað sitt en ef notandinn ákveður að hlaða niður heilli bíómynd í símann, eins og dæmi eru um, getur kostnaðurinn orðið þúsund sinnum meiri. Ástæðan er einföld – bíómynd er þúsund sinnum stærri en ljósmynd.“

Erlenda gjaldskráin há

Slíkum hlutum hafa margir flaskað á að undanförnu og uppskorið í staðinn símreikning, sem jafnvel skiptir hundruðum þúsunda. „Hæsti reikningur sem við höfum fengið er ein og hálf milljón fyrir eins mánaðar símnotkun í útlöndum,“ segir Hrannar. „Fólk er í mörgum tilvikum að nota sömu þjónustu erlendis og hér heima, en hér nýtur fólk góðs af harðri samkeppni og þjónustuleiðum þar sem ákveðin gagnanotkun innanlands er innifalin í áskriftargjaldi. Þegar þjónustan er notuð erlendis greiðir fólk fyrir notkunina eftir gildandi verðskrá hjá erlenda símafélaginu þar sem verðið getur verið mjög hátt.“

Hrannar bendir á að símafyrirtækin hér heima þurfi að greiða erlendu fyrirtækjunum þessa reikninga og því sé erfitt að koma til móts við fólk sem lendir í vandræðum vegna þessa. „Vandinn er að hluta til sá að jafnvel þótt notandi viti hvað niðurhal á einu megabæti kostar áttar hann sig stundum illa á því hversu mikið af gögnum hann er að sækja eða senda frá sér. Við hvetjum þess vegna fólk til að vera á verði og stofna ekki til meiri viðskipta en það er tilbúið að greiða fyrir.“

Eins og ein skíðaferð að borga

Honum brá í brún, manninum sem fékk farsímareikninginn sinn eftir tveggja og hálfrar viku dvöl í Flórída í Bandaríkjunum um síðastliðna páska. „Hann var 200 þúsund krónur en annars var reikningurinn alltaf um 35 þúsund krónur á mánuði, enda ferðast ég töluvert,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Maðurinn hafði eins og svo margir aðrir orðið sér úti um i-phone síma, og þar með opnuðust honum nýir möguleikar í farsímanotkuninni. „Í sjálfu sér er þetta ekkert óeðlilegt,“ segir hann. „I-phone-síminn færir þig miklu nær umhverfinu sem maður þekkir úr tölvunni þannig að það er svo lítið mál að skella sér á netið. Þetta var á þeim tíma sem hasarinn var í kringum gengi íslensku krónunnar þannig að þegar ég vaknaði á morgnana fór ég á netið til að tékka á því. Það er miklu flóknara að nota netið með öðrum símum.“

Reynslunni ríkari segist maðurinn nú gæta betur að sér þegar hann er á ferðalögum erlendis enda vill hann síður lenda í öðrum eins útgjöldum. „Þetta var svona eins og ein skíðaferð að borga.“

Oftast tengt „i-phone“

„Stærstu reikningarnir sem við höfum séð eru vegna notkunar á i-phone-símtækjunum,“ segir Hrannar inntur eftir því hvort einhverjir símar séu „hættulegri“ en aðrir í þessum efnum. Hann telur að um 5.000 íslenskir símnotendur eigi slíkan síma þótt hann sé ekki seldur hér á landi.

„Þetta er gott tæki en sumir sem hafa verið að fikta sig áfram hafa misst stjórnina á því og t.d. kveikt á einhvers konar sjálfvirku niðurhali eða uppfærslu á hugbúnaði. Þá getur síminn hreinlega tekið völdin og gert allt mögulegt sem notandinn veit ekki endilega af.“