Ragnhildur Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 31. júlí 1921. Hún andaðist á LSH í Fossvogi 14. september síðastliðinn. Foreldrar Ragnhildar voru Grímheiður Jónasdóttir, f. 1897, d. 1986 og Sigurður Ólafsson gjaldkeri Sjómannafélags Íslands, f. 1895, d 1947. Þau bjuggu að Hverfisgötu 71 í Reykjavík lengst af í sínum búskap. Ragnhildur var elst af fjórum systkinum. Næstur var Jónas kaupmaður, f. 1923, d. 2000, þá kom Hannes rafvirkjameistari, f. 1928, d. 2008 og yngst var Þorgerður afgreiðslukona, f. 1930.

Ragnhildur giftist 1948 Jóhanni Hákonarsyni leigubílstjóra, f. 1919, d. 1980. Börn þeirra eru: a) Sigurður viðskiptafræðingur, f. 1949. Fyrri kona Sigurðar var Helga Helen Andreasen, f. 1950, d. 1986. Börn þeirra eru Jóhann Carlo, f. 1977 og Ólöf Helga, f. 1979. Fyrir átti Helga dótturina Nönnu Þorbjörgu Pétursdóttur, f. 1970. Síðari kona Sigurðar var Margrét D. Kristjánsdóttir, f. 1956. Börn þeirra eru Hákon Logi, f. 1989 og Álfgrímur, f. 1992. Fyrir átti Margrét soninn Jón Friðrik Garðarsson, f. 1983. Þau skildu árið 2007. b) Halldór Ágúst trésmíðameistari, f. 1952. c) Grímheiður Freyja geislafræðingur, f. 1957, gift Arnari Friðrikssyni trésmið, f. 1958. Dóttir þeirra er Elísabet Elfa, f. 1985.

Ragnhildur gekk í Kvennakólann og Húsmæðraskóla Reykjavíkur og starfaði við verslunarstörf í Reykjavík að námi loknu. Ragnhildur var lengst af húsmóðir í Eskihlíð 13 og var alltaf til staðar ef einhver þurfti á að halda. Þegar börnin uxu úr grasi fór hún út á vinnumarkaðinn og starfaði sem verslunarmaður í nokkur ár og vann síðan ýmis störf á Landspítalanum við Hringbraut. Hún tók virkan þátt í félagsstörfum og þá sérstaklega fyrir Kvenfélag Hallgrímskirkju.

Útför Ragnhildar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Basar er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar Rögnu er minnst, en hún var í fjöldamörg ár formaður basarnefndar Kvenfélags Hallgrímskirkju og þar sat rétt kona í brúnni. Hún hafði einstaka hæfileika til að hrífa aðra með sér í þessu óeigingjarna starfi auk þess sem þeir munir eru óteljandi sem hún vann fyrir basarinn, hvort sem var hennar eigin útsaumur eða munir sem saumaðir voru úr bútum sem félaginu áskotnuðust. Það var gaman að sjá Rögnu að kvöldi basardagsins, þar sem hún sat með sparibaukinn og taldi þá peninga sem inn komu. Um jólin sendi hún okkur félagskonunum síðan hlýjar kveðjur, þar sem hún þakkaði stuðninginn við sig. Þannig var Ragna. Ragna var gerð að heiðursfélaga kvenfélagsins og það var yndislegt og lærdómsríkt að starfa með henni.

Fyrir hönd Kvenfélagsins þakka ég henni öll hennar óeigingjörnu störf og bið Guð að blessa minningu hennar.

Ása Guðjónsdóttir, formaður.