[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skíðaganga er firnagömul íþrótt. Áður fyrr auðvelduðu gönguskíðin mönnum samgöngur þar sem oft þurfti að fara vegleysur en núorðið er þetta vinsæl íþrótt sem óhætt er að segja að kæti og bæti heilsuna um leið.

Eftir Ragnhildi Sigurðardóttur

rs@24stundir.is

Þeir sem leggja leið sína um Fossvogsdalinn næstkomandi laugardag geta átt von á að sjá gönguskíðamenn þjóta fram hjá á ógnarhraða. Menn gætu spurt sig hvort skíðamenn séu ekki heldur vongóðir að plana fyrsta mót vetrarins í lok september enda lítil von um snjó. Þeir láta það þó ekki aftra sér og hafa skellt hjólum undir skíðin. Þar eru á ferð gönguskíðamenn úr skíðagöngufélaginu Ulli sem stendur fyrir hjólaskíðamóti en einnig eru væntanlegir þátttakendur frá Ísafirði, Akureyri og ef til vill víðar að.

„Þetta er fyrsta keppni sinnar tegundar innan höfuðborgarsvæðisins en í fyrra hélt félagið slíka keppni á veginum upp í Bláfjöll,“ segir Þóroddur F. Þóroddsson, formaður skíðagöngufélagsins.

„Það hefur stóraukist að gönguskíðamenn noti hjólaskíði til að æfa sig enda reyna þau á líkamann á sama hátt og gönguskíði og eru þess vegna kjörin til að stunda þegar snjóleysi er,“ segir Þóroddur. Hann segir jafnframt að gönguskíðaíþróttin sé ein besta alhliða líkamsþjálfunin sem reynir á flesta vöðva líkamans auk þess að styrkja lungun og auka þolið. Aðspurður hvort þessi íþrótt sé einungis á færi þjálfaðra íþróttamanna segir Þóroddur það síður en svo.

„Þetta er mjög góð þjálfun fyrir hvern sem er, hvort heldur hjóla- eða gönguskíðin,“ segir hann og bætir við að þar fyrir utan sé þetta svo skemmtilegt. „Þetta er útivist sem öll fjölskyldan getur stundað.“

Skíðagöngufélagið Ullur var stofnað í fyrra og segir Þóroddur að það hafi ekki síður verið stofnað fyrir almenning en þá sem þjálfa og keppa á gönguskíðum. „Síðastliðinn vetur voru frábærar aðstæður í Bláfjöllum og hundruð manna sem notuðu sér gönguskíðaleiðirnar. Við viljum þó endilega fjölga þeim sem stunda gönguskíðin og kynna þau betur fyrir almenningi.“

Það er því ekkert að vanbúnaði fyrir þá sem vilja spreyta sig á göngu- eða hjólaskíðum og geta þeir haft samband við Ullunga. „Fólk sem ekki á búnað getur fengið að prófa hjá okkur. Heimasíða félagsins er www.skidagongufelagid.blog.is og einnig er kjörið fyrir fólk að koma við í Fossvogsdalnum á laugardaginn og ná þar tali af okkur um leið og það getur fylgst með keppninni,“ segir Þóroddur.

Mótið verður haldið á stígum í Fossvogsdal á laugardaginn og hefst kl 13. Það hefst innst í dalnum, við Víkingsheimilið.

Í hnotskurn
Nafn gönguskíðafélagsins Ullar er komið úr goðafræðinni en einn af ásunum hét Ullur og var skíðagoð mikið. Skíðaganga er elst skíðaíþrótta og upprunnin á Norðurlöndum. Fyrst var keppt í skíðagöngu á Íslandi 1937.