Óánægju hefur gætt á meðal viðskiptavina vegna breytts fyrirkomulags varðandi pósthólf á pósthúsinu í Keflavík samkvæmt heimildum 24 stunda.

Óánægju hefur gætt á meðal viðskiptavina vegna breytts fyrirkomulags varðandi pósthólf á pósthúsinu í Keflavík samkvæmt heimildum 24 stunda. Nú geta viðskiptavinir ekki lengur farið og sótt póstinn sinn í pósthólf sem þeir leigja heldur þurfa þeir að fá hann afhentan í afgreiðslu á venjulegum afgreiðslutíma.

„Þetta fyrirkomulag er orðið mjög almennt hérna á höfuðborgarsvæðinu og hefur gengið mjög vel,“ segir Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningardeildar Íslandspósts.

Ágústa tekur fram að það sé mjög kostnaðarsamt að vera með stór svæði undir læst pósthólf og nefnir að í Keflavík hafi pósturinn verið að endurskipuleggja húsnæðið og því hafi fyrirkomulagið breyst í kjölfarið. „Það stendur ekki til að breyta gjaldinu sem tekið er fyrir útleiguna,“ segir hún. Bæði kvartanir og ánægjuskilaboð berast fyrirtækinu reglulega að hennar sögn.

asab@24stundir.is