Hveravík Borinn Jökull hefur verið fundvís á heitt vatn á svæðinu.
Hveravík Borinn Jökull hefur verið fundvís á heitt vatn á svæðinu.
Eftir Andra Karl andri@mbl.is „ÞETTA er miklu meira en við bjuggumst við,“ segir Magnús Hans Magnússon, annar eigenda Hveraorku ehf.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

„ÞETTA er miklu meira en við bjuggumst við,“ segir Magnús Hans Magnússon, annar eigenda Hveraorku ehf., en fyrirtækið hefur staðið fyrir borun til að ná upp heitu vatni í Hveravík við norðanverðan Steingrímsfjörð. „Við höfum verið að bora þarna undanfarnar vikur með hléum og það er búið að bora niður á 312,5 metra dýpi. Við vitum að holan gefur í það minnsta 40–50 lítra á sekúndu af heitu vatni. Vatnið er núna komið í um 76° en búið er að dæla miklu magni af köldu vatni niður í holuna þannig að hún á eftir að hitna heilmikið.“

Hitaveita á Hólmavík draumur

Holan var skáboruð og var ætlunin að skera jarðhitasprunguna ekki dýpra en í um 270–300 metrum. Árni Kópsson boraði holuna, með jarðbornum Jökli, og verkefnisstjóri af hálfu Íslenskra orkurannsókna var Haukur Jóhannesson. „Þetta lítur vel út og hefur gengið alveg eftir forskrift Hauks,“ segir Magnús en tekur fram að dælt verði upp úr holunni í þessari viku, og þá komi í ljós hversu heit hún raunverulega er.

Magnús segir draum sinn og Gunnars Jóhannssonar, hins eiganda Hveraorku, vera að koma hitaveitu til Hólmavíkur. „En við erum ekki farnir að ræða við neina forsvarsmenn, til dæmis Strandabyggðar. Við fengum verkfræðistofu til að spá fyrir okkur í vatnsþörf Hólmavíkur og hún er áætluð 15 lítrar á sekúndu.“

Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri í Strandabyggð, segist áhugasöm um verkefnið en það hafi ekki verið rætt innan sveitarstjórnar. Kostnaðurinn skipti mestu máli, segir hún og tekur fram að Hólmvíkingar greiði ekki svo mikið meira fyrir heita vatnið en höfuðborgarbúar. Hún reiknar með viðræðum á næstu vikum.