Eftir Auði Alfífu Ketilsdóttur fifa@24stundir.

Eftir Auði Alfífu Ketilsdóttur

fifa@24stundir.is

„Það er ótrúlegt að borga 125 þúsund krónur í afborganir á mánuði en þrátt fyrir það hækki lánið um 170 þúsund á mánuði,“ segir maður sem í mars 2006 tók lán hjá Landsbankanum upp á 22,8 milljónir. Á 30 mánuðum hefur höfuðstóllinn hækkað um 4,9 milljónir þrátt fyrir að hann hafi borgað á fjórðu milljón í afborganir. „Maður nær seint í endann á þessu láni,“ segir hann.

Þorkell Kristinsson hefur svipaða sögu að segja. Hann tók 12,9 milljóna lán hjá Íbúðalánasjóði í mars 2005. Eftirstöðvar eftir síðustu afborgun voru 16,1 milljón. Mánaðarlegar afborganir hafa að sama skapi hækkað, voru 56 þúsund upphaflega en eru nú 71 þúsund.

Ögmundur Jónasson var í forsvari fyrir Sigtúnshópinn svokallaða fyrir 25 árum. Hann segir sömu hættumerki á lofti nú og þá.

„Þá hækkuðu lánin meira en verðgildi eignanna og vísitölutengingu launa var hætt, svo þau hækkuðu ekki í samræmi.

Við þessu dugir ekkert annað en sameiginlegt átak til að ná niður verðbólgu og auka jöfnuð.“

Í hnotskurn
Bankarnir komu inn á húsnæðismarkaðinn haustið 2004 og buðu 90% lán, þeir hækkuðu þó fljótlega í 100% lánshlutfall. Lægstu vextir á húsnæðislánum voru þá 4,15% en 5 ára endurskoðunarákvæði er á lánunum.