Valgerður Sverrisdóttir: "...að heilbrigðisþjónusta getur aldrei orðið í formi hefðbundinna viðskipta þar sem hagnaðarvon ræður för."

Eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar vorið 2007 var ljóst að áform voru uppi um breytingar á heilbrigðisþjónustu landsmanna. Í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna kom fram að skapa skyldi svigrúm til fjölbreytilegra rekstrarforma, m.a. með útboðum og þjónustusamningum. Þessar áherslur komu okkur framsóknarmönnum ekki á óvart þar sem okkur var ljóst eftir 12 ára samstarf við sjálfstæðismenn að þeim þótti ganga illa að færa reksturinn frá hefðbundnum ríkisrekstri til einkarekstrar. Þessi ágreiningur birtist ekki síst í fyrirspurnartímum þegar núverandi formaður heilbrigðisnefndar, Ásta Möller, spurði ráðherra Framsóknarflokksins út í heilbrigðismál.

Það sem kom okkur hins vegar á óvart var að Samfylkingin skyldi vera svona fljót að tileinka sér einkarekstraráráttu Sjálfstæðisflokksins og fylgja þeim í einu og öllu í þessum róttæku breytingum.

Eftir að forsætisráðherra, Geir H. Haarde, hafði tjáð sig á fundi í Valhöll með þeim hætti að samstarfið við Samfylkinguna gerði sjálfstæðismönnum kleift að gera breytingar á heilbrigðiskerfinu sem ekki hefði verið mögulegt með öðrum stjórnmálaflokkum var ljóst að eitthvað mikið var í undirbúningi. Í framhaldinu var síðan samþykkt á Alþingi að setja á laggirnar nýja stofnun, sjúkratryggingastofnun, og nú hefur þeirri stofnun verið settur lagarammi.

Óðagotið og málsmeðferðin

Öll málsmeðferð af hálfu heilbrigðisráðherra og formanns heilbrigðisnefndar var með endemum. Frumvarpinu um sjúkratryggingar, sem nú er orðið að lögum, var dreift á Alþingi sl. vor – meira en mánuði eftir að frestur til að leggja fram mál hafði runnið út. Formaður tók sér síðan það bessaleyfi, sem ekki samræmist þingsköpum, að senda málið út til umsagnar í eigin nafni til að vinna tíma. Heilbrigðisráðherra auglýsti stöðu forstjóra fyrir stofnunina án þess að um hana giltu lög og svona mætti áfram telja. Engu að síður náði málið ekki fram að ganga á vordögum en það var afgreitt nú á septemberþinginu. Áður hafði heilbrigðisnefnd farið í kynnisferð til Svíþjóðar til að eiga samtöl við Svía um þær breytingar sem þeir hefðu gert á fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustunnar en þaðan er aðalfyrirmynd þeirra breytinga sem hér eru nú orðnar að veruleika. Í Svíþjóð er heilbrigðisþjónustan á hendi héraðanna og hafa sjö af 20 héruðum tekið upp umrætt fyrirkomulag. Þessi ferð tókst ágætlega og var í marga staði upplýsandi.

Hvers vegna styðja framsóknarmenn ekki breytingarnar?

Þingmenn Framsóknarflokksins sátu hjá við lokaafgreiðslu málsins og færði ég rök fyrir þeirri afstöðu í umræðunni. Við styðjum að sjálfsögðu markmið frumvarpsins sem er að tryggja sjúkratryggðum aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu og aðstoð sem á hverjum tíma eru tök á að veita og að allir sjúkratryggðir njóti hér eftir sem hingað til umsaminnar þjónustu, óháð efnahag. Við styðjum einnig þann tilgang frumvarpsins að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Kostnaðargreining einstakra aðgerða og læknisverka er mikilvæg og að því máli hefur verið unnið. Við teljum hins vegar mikilvægt að áfram verði lagt til grundvallar að heilbrigðisþjónusta getur aldrei orðið í formi hefðbundinna viðskipta þar sem hagnaðarvon ræður för.

Það sem við viljum ekki bera ábyrgð á er framkvæmd heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins á lögum um sjúkratryggingar. Það liggur í loftinu að breyting til víðtæks einkarekstrar er á döfinni og eitt er víst að sporin hræða. Á stuttum ferli hefur heilbrigðisráðherra gripið til gerræðislegra ráðstafana sem gefa vísbendingar um það sem koma skal. Margt er óútfært sem varðar þessa lagasetningu og stjórnarsinnar segja ýmist að mikill kostnaður við rekstur heilbrigðiskerfisins sé ástæða breytinganna eða að þetta nýja fyrirkomulag muni ekki draga úr kostnaði. Það er algjörlega óljóst hvernig samningar verða útfærðir gagnvart minni stofnunum á landsbyggðinni sem gegna mikilvægri þjónustu og ekki er ljóst hvernig hlutverk heilbrigðisstofnana í menntun heilbrigðisstétta verður leyst af hendi. Svona mætti áfram telja.

Þau lög um sjúkratryggingar sem nú hafa verið sett eru fyrst og fremst rammi utan um þann vilja Sjálfstæðisflokksins að stórauka aðkomu einstaklinga að rekstri heilbrigðisstofnana.

Við framsóknarmenn munum standa vaktina og veita stjórnvöldum aðhald á næstu mánuðum – með hagsmuni landsmanna í huga.

Okkur er annt um heilbrigðiskerfið sem byggt hefur verið upp undir okkar forystu og er talið eitt það besta sem þekkist á byggðu bóli.

Höfundur er þingmaður.

Höf.: Valgerður Sverrisdóttir