[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is „AMMA Dúna sagðist sjálf vera bara venjuleg manneskja, en fyrir mér var hún annað og meira en það,“ segir á boðskorti ljósmyndasýningar Grétu S. Guðjónsdóttur, Dúna .

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

„AMMA Dúna sagðist sjálf vera bara venjuleg manneskja, en fyrir mér var hún annað og meira en það,“ segir á boðskorti ljósmyndasýningar Grétu S. Guðjónsdóttur, Dúna .

Sýningin er afskaplega persónuleg og hlaðin tilfinningum, ljósmyndir sem Gréta tók af ömmu sinni heitinni, Guðnýju Kristrúnu Níelsdóttur, sem kölluð var Dúna, á fimm ára tímabili. Undir lok ævinnar var hún farin að þjást af vitglöpum og segir Gréta að þess sjáist merki í myndunum ef vel sé að gáð, einkum í augum ömmu hennar.

Meðal ljósmyndanna eru nokkrar sem teknar voru undir lok ævi Dúnu, m.a. á sjúkrahúsi og nokkrar af henni liðinni, við kistulagninguna. Í ljósi þess hversu viðkvæmt efni sýningarinnar er og persónulegt, ekki aðeins fyrir Grétu heldur aðra afkomendur Dúnu, liggur beinast við að spyrja af hverju hún hafi ákveðið að taka myndirnar og setja á sýningu.

„Það sem ég kveið mest fyrir af öllu þegar ég var krakki var að missa ömmu,“ svarar Gréta, þær hafi verið afar nánar og miklir vinir. „Ég held að þetta sé mín leið til að hafa hana alltaf hjá mér, gera hana ódauðlega. Sem ljósmyndari er ég mikið í því að safna minningum, held að þetta sé viss söfnunarárátta.“ Dúna lést fyrir tæpu ári og segist Gréta með sýningunni votta ömmu sinni virðingu og minnast með sínum hætti.

Fór í listaskólapartí

Amma Dúna var dugnaðarforkur, vann langt fram á áttræðisaldur og var mjög sjálfstæð, vel gefin og skemmtileg, að sögn Grétu. Gréta rifjar upp þann tíma er hún bjó í Hollandi og var við listnám, ein með nýfætt barn. Þá kom amma hennar út til hennar og bjó hjá henni í nokkra mánuði og fór meðal annars með henni í skólaferðalög og partí. „Hún tók fullan þátt í þessu og fannst það gaman,“ rifjar Gréta upp brosandi.

Hún segir ömmu sína hafa vitað af því að hún ætlaði að halda sýningu og setið viljug fyrir. „Einhvern tíma voru mamma og systir hennar að baða hana og þá spurði hún: „Á ekkert að taka myndir af þessu?“,“ segir Gréta og kímir. Amma hennar hafi verið mikill húmoristi.

Sýningin verður opnuð í dag kl. 17.

Raunsæi

GRÉTA segir sýninguna ekki aðeins myndir af fallegri konu heldur myndir teknar á erfiðum tíma, þegar heilsa ömmu hennar tók að gefa sig. „Myndirnar munu eflaust hreyfa við einhverjum, með misjöfnum hætti,“ segir Gréta. Það sé vissulega erfitt í fámennu samfélagi að halda jafn persónulega sýningu. Myndirnar séu afar blátt áfram og raunsæjar. „Við amma erum með þessa sýningu saman, finnst mér, þetta er okkar samband.“

Gréta segir ömmu sína ekki hafa tranað sér fram þó að hún hafi vissulega haft ákveðnar skoðanir á hlutunum. Því hafi hún viljað bíða með sýninguna þar til hún væri farin yfir móðuna miklu.

Vefsíða Grétu, www.greta.is.