Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is MIKILL þrýstingur er á hækkanir á vöru og þjónustu vegna veikingar krónunnar og bendir margt til að verðbólgan muni því færast í aukana.

Eftir Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

MIKILL þrýstingur er á hækkanir á vöru og þjónustu vegna veikingar krónunnar og bendir margt til að verðbólgan muni því færast í aukana. Neysluverðsvísitalan hækkaði um 0,86% frá í ágúst sem jafngildir 14% verðbólgu á heilu ári. „Það eru nokkuð uggvænlegar horfur,“ segir Guðrún R. Jónsdóttir, deildarstjóri á Hagstofunni. Frá því Hagstofan lauk mælingu sinni fyrir miðjan september hefur krónan veikst um 7%, sem mun að öllum líkindum koma fram í verðhækkunum á næstunni. „Ef gengisþróunin breytist ekki þá eru horfurnar ekki bjartar,“ segir hún.

Viðbúið að meira sé í pípunum

Í nýliðnum mánuði mældist 0,94% lækkun á bensíni og olíum í vísitölunni, þar sem olíufélögin héldu eldsneytisverðinu að mestu óbreyttu. Í gær bárust hins vegar tilkynningar um 3-4 kr. verðhækkun á bensínlítra og 5-6 kr. hækkun á dísilolíu.

,,Það eru áframhaldandi hækkanir á mörgum liðum. Það eru nánast allir liðir vísitölunnar að breytast,“ segir Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ. „Við höfum haft einhverjar spurnir af áframhaldandi hækkunum og er þá yfirleitt vísað til gengis krónunnar. Við óttumst að við séum ekki alveg komin yfir kúfinn. Það er viðbúið að það sé eitthvað meira í pípunum.“

Íbúðaverð | 14