Reðurtáknið mundað Prins Grímsson handleikur gítarinn með glans.
Reðurtáknið mundað Prins Grímsson handleikur gítarinn með glans. — Mynd/Svartipétur
„Nei, það má ekkert orðið í rokkinu lengur, pólitísk rétthugsun er okkur lifandi að drepa,“ segir gítarleikari Atómstöðvarinnar, Prins Grímsson, en myndband sveitarinnar við lagið Mace var bannað sökum þess að rauði þráðurinn í myndbandinu...

„Nei, það má ekkert orðið í rokkinu lengur, pólitísk rétthugsun er okkur lifandi að drepa,“ segir gítarleikari Atómstöðvarinnar, Prins Grímsson, en myndband sveitarinnar við lagið Mace var bannað sökum þess að rauði þráðurinn í myndbandinu var „áfengissýki, villimennska og almennur ósómi,“ eins og segir í tilkynningu.

Fjölskylduvæn útgáfa komin út

„Þetta særði víst blygðunar-kennd einhverra, sem er undarlegt, því aðeins sást í 2/3 af geirvörtu, það var nú öll nektin,“ segir Prins hneykslaður. „Það er nú ekki eins og þetta hafi verið heimatilbúið klám sko! Þó svo að það sjáist í einhverjar túttur hjá okkur og Sigur Rós, hvað um það?“ segir Prins og neitar því að myndbandið hafi vísvitandi verið gert ósæmilegt til þess að fá enn meiri athygli. „Alls ekki. Þetta er efni úr tónleikaferðalögum, partíum og hljóðversupptökum sem hefur safnast saman á síðastliðnum tveimur árum og klipparinn okkar ákvað að nota. En nú er komin ný fjölskylduvænni útgáfa af myndbandinu, svo góðborgararnir geta verið ánægðir.“ En er rokkaralífsstíllin ekta eða áunninn með hópþrýstingi?

„Góð spurning. Eflaust sitt lítið af hvoru. Eflaust er ekki gaman að vera í Atómstöðinni eða í AA-samtökunum. En eflaust sækja alkar í tónlistarbransann og tónlistarbransinn gerir marga að ölkum.“

Nálgast má myndbandið á youtube með leitarorðunum Mace by Atomstation. traustis@24stundir.is