[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veigar Páll Gunnarsson lagði upp fyrsta mark Stabæk í gærkvöld þegar liðið lagði Molde að velli á sannfærandi hátt, 3:0, í undanúrslitum norsku bikarkeppninnar í knattspyrnu.
V eigar Páll Gunnarsson lagði upp fyrsta mark Stabæk í gærkvöld þegar liðið lagði Molde að velli á sannfærandi hátt, 3:0, í undanúrslitum norsku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Stabæk, sem er efst í úrvalsdeildinni, leikur til úrslita gegn Vålerenga eða Odd Grenland , liði Árna Gauts Arasonar , en viðureign þeirra fer fram í kvöld. Pálmi Rafn Pálmason kom inná hjá Stabæk undir lok leiksins.

Hörður Axel Vilhjálmsson körfuknattleiksmaður er hættur með spænska liðinu Melina og er á heimleið og mun leika með Keflavík í vetur. Frá þessu var sagt á karfan.is og þar er haft eftir Herði að hann hafi verið rekinn frá félaginu, en hann samdi við það til tveggja ára. Hugmyndin hafi verið að hann fengi þennan vetur til að venjast öllum aðstæðum og síðan færi hann að spila á næsta ári. Hörður segir að þjálfarinn hafi rætt þetta við sig og sagt að ekkert lægi á en viku síðar hafi hann kallað á sig inn á skrifstofu og rekið sig

Rut Jónsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Team Tvis Holstebro þegar liðið tapaði fyrir KIF Vejen í dönsku bikarkeppninni í handknattleik í fyrrakvöld.

Hreiðar Levy Guðmundsson stóð í marki Sävehof þegar liðið vann Skövde , 28:26, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöldi. Einar Logi Friðjónsson var ekki á meðal þeirra sem skoruðu fyrir Skövde-liðið að þessu sinni. Sävehof er í efsta sæti deildarinnar með 4 stig að loknum 2 leikjum. Skövde er með 2 stig.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði 2 mörk fyrir GOG í sigri liðsins á Viborg , 35:28, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær en Snorri Steinn Guðjónsson lék ekki með GOG vegna meiðsla. Gísli Kristjánsson og félagar hans í Nordsjælland höfðu betur gegn Mors/Thy , 23:17, og skoraði Gísli 2 mörk í leiknum.

Heiðmar Felixson skoraði 3 mörk fyrir Hannover-Burgdorf þegar liðið sigraði Hannover-Anderten , 23:19, í 2. umferð þýsku bikarkeppninnar í handknattleik í gær. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel unnu öruggan sigur á Ahlener á útivelli, 37:26. Filip Jicha var atkvæðamestur í liði Kiel með 9 mörk.

J aliesky Garcia skoraði 8 mörk og var markahæstur í liði Göppingen en liðið sigraði Hüttenberg á útivelli, 32:25. Alexander Petersson lék ekki með Flensburg vegna meiðsla en lið hans bar sigurorð af Hildesheim á útvelli, 30:25, og skoraði danski landsliðsmaðurinn Lars Christiansen 10 mörk fyrir Flensburg. Gylfi Gylfason skoraði 2 af mörkum Minden sem lagði TSV Bremervörde, 29:18, á útivelli.

Ólafur Stefánsson skoraði 7 mörk fyrir Ciudad Real í gærkvöld þegar Spánar- og Evrópumeistararnir í handknattleik unnu stórsigur á Almería , 40:26, í spænsku 1. deildinni í handknattleik. Eitt markanna var úr vítakasti.