Mjólkurbú Mikil hagræðing hefur verið í mjólkuriðnaði og frá miðju ári 2006 hefur störfum fækkað um 120. Starfsmenn Auðhumlu eru nú um 400.
Mjólkurbú Mikil hagræðing hefur verið í mjólkuriðnaði og frá miðju ári 2006 hefur störfum fækkað um 120. Starfsmenn Auðhumlu eru nú um 400. — Morgunblaðið/Steinunn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.

Eftir Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

SVARTUR dagur í sögu húnvetnskrar mjólkurframleiðslu eftir 60 ára starf samlagsins,“ segir Magnús Sigurðsson, kúabóndi á Hnjúki og formaður A-Húnaþingsdeildar Auðhumlu, um þá ákvörðun Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar (MS) að loka mjólkurbúinu á Blönduósi frá áramótum. Á þessa lund hafa viðbrögð heimamanna verið við tíðindunum. Hefur bæjarstjórnin óskað eftir fundi með Auðhumlu til að fá nánari skýringar.

En forsvarsmenn Auðhumlu segjast ekki gera þetta að gamni sínu. Fyrirtækið þurfi að hagræða í rekstrinum og bregðast við miklum hækkunum á öllum aðföngum og kostnaði. Er blessuð krónan nefnd til sögunnar í þeim efnum, að ógleymdum launahækkunum. Dýrara sé orðið að vinna úr hverjum mjólkurdropa en áður.

Ekki verður bakkað

Magnús Ólafsson, forstjóri Auðhumlu og MS, segir að með lokuninni á Blönduósi sparist tugir milljóna króna en fyrirtækið þurfi á þessu ári að hagræða um 400 til 500 milljónir króna.

Hagræðingin heldur því áfram en fyrir sléttu ári varð uppi fótur og fit þegar tilkynnt var um lokun mjólkurbúsins á Egilsstöðum. Eftir hávær mótmæli heimamanna var sú ákvörðun endurskoðuð að hluta og ostaframleiðslu haldið áfram ásamt dreifingu fyrir Austurland.

Miðað við orð Magnúsar forstjóra þá er harla ólíklegt að bakkað verði með ákvörðunina á Blönduósi. Hann segir að Mjólkursamsalan muni áfram hlúa að þeim 33 framleiðendum á svæðinu sem hafi lagt inn mjólk á Blönduósi, alls um 4,2 milljónir lítra á ári. Hins vegar sé ekki hægt að halda uppi einhverri dreifingu á Blönduósi, líkt og gert hafi verið á Egilsstöðum. Framleiðslan á Blönduósi hafi verið það einhæf.

Úrvinnsla mjólkurafurða hefur verið starfrækt á Blönduósi í 60 ár en starfsmönnum mjólkurbúsins hefur fækkað hin síðari ár. Nú starfa þar átta manns, þar af einn mjólkurfræðingur. Verður þeim boðin önnur vinna, m.a. við úrvinnslu sjávarbragðefna sem til stendur að flytja frá Skagaströnd í húsnæði mjólkurbúsins á Blönduósi. Auðhumla á hlut í fyrirtækinu SERO sem starfað hefur á Skagaströnd frá 1999.

Að sögn Magnúsar verða mjólkursöfnunarbílar áfram á Blönduósi en sjálf úrvinnsla mjólkurinnar flyst til Akureyrar. Undanskilin er vinnsla á völsuðu mjólkurdufti, sem notað hefur verið til sælgætisgerðar, og flyst hún á Selfoss. „Við höfum verið á fullu við að hagræða, alveg frá því að félagið varð til á síðasta ári. Meðal annars höfum við lagt niður stórfyrirtæki í Reykjavík sem heitir Osta- og smjörsalan, og við erum í mikilli tilfæringu á framleiðslu til að gera hana hagkvæmari,“ segir Magnús og tekur dæmi um mygluostagerðina sem verið er að safna saman í Búðardal. „Við höfum verið að sérhæfa framleiðsluna til að búa okkur undir frekari samkeppni.“

Hvað með byggðasjónarmiðin?

Mjólkurframleiðendur í Húnaþingi eru sem fyrr segir ókátir með þessa niðurstöðu. Magnús á Hnjúki segist hafa heyrt í nokkrum starfsbræðum sínum og allir lýst miklum vonbrigðum og harmi. „Við teljum að byggðasjónarmið hefðu átt að ráða ríkjum og halda samlaginu opnu. Þetta hefur vofað yfir okkur um nokkurt skeið en við töldum okkur vera á lygnum sjó og með það góða framleiðslu til duftgerðar að við yrðum áfram með samlagið,“ segir hann og telur nálægð bænda við afurðastöðvar hafa gríðarlegt gildi fyrir greinina í heild sinni.

Kemur formanni LK ekki á óvart

Þórólfur Sveinsson á Ferjubakka, formaður Landssambands kúabænda, segir að ákvörðun Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar komi sér ekki á óvart. Reksturinn sé orðinn samtengdur með eignaraðild Auðhumlu og Kaupfélags Skagfirðinga að Mjólkursamsölunni.

„Auðhumla á samlagið á Blönduósi og miðað við það sem hefur verið að gerast annars staðar á landinu á það ekki að koma á óvart að ekki sé talin þörf á að reka samlög á Akureyri, Sauðárkróki og Blönduósi, ásamt Búðardal. Þar að auki er afkoman í mjólkuriðnaðinum slæm um þessar mundir og það ýtir meira á menn að draga enn frekar úr kostnaði,“ segir Þórólfur.

Hann segist hins vegar skilja mjög vel óánægju kúabænda í Húnaþingi. Eðlilega sjái menn eftir samlaginu sem þeir hafi lagt inn hjá alla sína starfsævi og störfunum sem fylgja. Sjálfur hafi hann gengið í gegnum þetta þegar mjólkursamlaginu í Borgarnesi var lokað á sínum tíma.

Í hnotskurn
» Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 700 mjólkurframleiðenda, stofnað vorið 2007 í kjölfar mikilla sameininga í mjólkuriðnaði.
» Meðal dótturfélaga Auðhumlu er Mjólkursamsalan (MS) sem annast rekstur á mjólkurbúum. Á Auðhumla 85% hlut í MS á móti 15% í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, sem rekur eigið mjólkursamlag á Sauðárkróki.
» Auk Blönduóss hefur MS verið með starfsstöðvar í Reykjavík, Búðardal og á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi.