[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Viggó I. Jónasson viggo@24stundir.is „Þetta er svo einfalt að það er hreint snilldarverk,“ segir pistlahöfundur tæknivefsíðunnar Slipperybrick.com en hann er einn fjölmargra sem hafa heillast af hönnun Hafsteins Júlíussonar.

Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir.is

„Þetta er svo einfalt að það er hreint snilldarverk,“ segir pistlahöfundur tæknivefsíðunnar Slipperybrick.com en hann er einn fjölmargra sem hafa heillast af hönnun Hafsteins Júlíussonar.

Varan sem um ræðir er fartölvutaskan Napbook en hún er útbúin á þann veg að hún getur jafnt gegnt hlutverki tösku og kodda.

Hafsteinn býr nú í Mílanó þar sem hann stundar mastersnám í innanhúss- og iðnhönnun og hann er furðu lostinn yfir því hve mikla athygli hönnun hans hefur vakið.

„Ég setti eina mynd, bara svona að gamni, inn á blogg og eftir það trylltist allt. Síðan þá hef ég fengið 80.000 stakar heimsóknir á nokkrum vikum. Svo eru eitthvað um 30 blöð og tímarit búin að hafa samband við mig.“

Skólagjöldin ekki áhyggjuefni

Hafsteinn segir að nú þegar hafi þó nokkur fyrirtæki leitað til hans varðandi framleiðslu og dreifingu á hönnun hans. „Það er alveg fáránlegt hvernig netið hleður upp á sig. Ég var bara að fara í nám en ætlaði ekkert að fara að vinna í einhverri framleiðslu núna. Núna situr pabbi bara sveittur heima að svara einhverju liði.“

Aðspurður hvort það séu háar fjárhæðir sem þessi fyrirtæki bjóði honum segist Hafsteinn ekki mikið velta því fyrir sér og hann fari sér að engu óðslega. En honum er ljóst að ef samningar nást þarf hann líklega ekki að hafa miklar áhyggjur yfir skólagjöldum. „Það er verið að tala um dreifingu í Bandaríkjunum og Asíu og það eru náttúrlega frekar stórir markaðir.“

Fleira en koddinn

En það er ekki bara Napbook sem hefur vakið áhuga erlendra aðila. Önnur hönnun Hafsteins, svo sem Organic Jewelry, sem eru skartgripir skreyttir íslenskum mosa, og Slim Chips hafa einnig vakið mikla athygli. Slim Chips eru ætar, fitulausar pappírsflögur með náttúrulegu bragði og hefur ein virtasta sjónvarpsstöð heims sýnt pappafóðrinu mikinn áhuga. „Það var einhver matvælaþáttur á BBC sem vildi fjalla um þær,“ segir íslenski hönnuðurinn Hafsteinn.