Guðrún Þóra Hjaltadóttir
Guðrún Þóra Hjaltadóttir
Guðrún Þóra Hjaltadóttir segir frá upplifun sinni af félagsstörfum í Frjálslynda flokknum: "Núna þegar Kristinn H. setur Guðjón í skotgröfina og segir að öfl innan flokksins séu að niðurlægja Guðjón Arnar, gengur hann skrefi of langt."

Það að starfa í félagsmálum á að vera bæði skemmtilegt og gagnlegt. Það á að vera eðlilegt að takast á um málefnin. Flokksstarf á að sjálfsögðu að snúast um málefnin en ekki fólkið.

Eftir landsþing FF, sem haldið var fyrir tæpum tveimur árum, var ég kjörin varamaður í miðstjórn. Þegar hópur fólks gekk úr FF færðist ég ofar og hef þar af leiðandi setið í miðstjórn Frjálslynda flokksins.

Ég hafði á þessum tímapunkti ekki hugmynd um verklag miðstjórnar í stjórnmálaflokki.

Fyrsti miðstjórnarfundurinn gekk mjög vel. Sá næsti varð frekar óþægilegur þar sem Kristinn H. Gunnarsson réðst á Sigurjón Þórðarson með skít og skömm. Ég íhugaði hvort stjórnmál væru af þessum toga, því á næsta fundi réðst Kristinn H. bæði á Sigurjón Þórðarson og Magnús Þór.

Það var greinilega svona sem þessi flokkur starfar, áttaði ég mig á.

Miðstjórnarfundunum fjölgaði og fórnarlömbum Kristins H. fjölgaði líka, þar var Viðar Guðjohnsen, formaður ungliðahreyfingarinnar, tekinn fyrir og Tryggvi Agnarsson, síðar formaður kjördæmafélags Reykjavíkur norður. Þessi læti héldu áfram og hönd Kristins H. fór að lyftast í öllum æsingnum.

Félagar FF í ákváðu að stofna félag í Reykjavík suður og norður. Það þarf að vera vettvangur til að gefa félagsmönnum kost á að starfa. Hittast og tala um stjórnmál.

Stofnun á félögum FF í Reykjavík fór svo mjög fyrir brjóstið á Kristni H. Gunnarssyni að hann náði ekki áttum eftir það. Hann taldi stofnun þessara félaga vera aðför að sér og uppnefndi þau Power-stöðvar.

Félögin í Reykjavík voru búin að finna húsnæði til að halda úti skrifstofu en ákveðið afl í Austurstrætinu gerði allt til að setja fótinn fyrir þá starfsemi.

Það var meira að segja svo lágkúrulegt að „Starfmenn í Austurstrætinu“ þóttust ekki kannast við félagsmanninn sem þar starfaði ef hringt var í þeirra síma.

Þeim tókst að fæla starfsmanninn í burtu, og alveg er ég viss um það að þeim hefur létt þar, Austurstrætisfólkinu.

Svo undarlega vill til að nýverið er búið að opna skrifstofu í Kópavogi og þar er kominn Helgi Helgason til starfa. Helgi er á launum hjá flokknum. Það var bara gert sísvona án þess að bera það undir stofnanir flokksins.

Ekki var það nefnt einu orði á miðstjórnarfundi, þar sem mikil umræða hafði farið fram um félögin í Reykjavík.

Það félagsstarf sem unnið hefur verið í Reykjavík hefur allt verið í óþökk Kristins H. Gunnarssonar. Enda heldur hann sig langt frá hinum almenna félagsmanni.

Það er nú einu sinni þannig að félagsstarf þarf að vera í samtökum sem ætla sér að skila einhverri vinnu. Það er óumflýjanlegt.

Kristinn H. tekur ekki þátt í neinu slíku starfi. Hann lítur niður á allflesta félagsmenn. Hann hefur heldur ekki starfað í málefnavinnu flokksins. Úr orðum Kristins H. – hvort sem um ræðir talað eða ritað mál – er óumflýjanlegt annað en að lesa vanvirðingu á hinum almenna félagsmanni.

Það eru alltaf átök í stjórnmálum, það er trúlega óumflýjanlegt. Engum leynast átökin bæði í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni. Það er hins vega erfitt þegar svona lítill flokkur getur ekki þrifist fyrir innbyrðis átökum.

Núna þegar Kristinn H. setur Guðjón í skotgröfina og segir að öfl innan flokksins séu að niðurlægja Guðjón Arnar, gengur hann skrefi of langt Kristinn H. setur sig ekki inn í hlutina og hann kann að færa áherslurnar frá sér yfir á Guðjón Arnar sem er afar óheiðarlegt af honum þar sem Guðjón Arnar hefur varið hann í öllum tilfellum og alls ekki alltaf réttlát að mínu mati.

Ég leyni því ekki að ég starfaði með Nýju afli en Nýtt afl var ekki hryðjuverkasamtök.

Ég gekk í flokk sem Kristinn H. Gunnarsson var ekki í, hins vegar gekk Kristinn H. í flokk þar sem allt þetta „hryðjuverkafólk“ var fyrir, hvernig datt honum það í hug?

Höfundur er næringarráðgjafi og félagi í Frjálslynda flokknum.