McCain Efnahagsvandinn hefur reynst McCain fjötur um fót.
McCain Efnahagsvandinn hefur reynst McCain fjötur um fót. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is FORSETAFRAMBJÓÐANDI repúblikana, John McCain, kom enn á óvart í kosningabaráttunni vestra í gær.

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

FORSETAFRAMBJÓÐANDI repúblikana, John McCain, kom enn á óvart í kosningabaráttunni vestra í gær. McCain tilkynnti að hann vildi gera hlé á kosningabaráttunni svo hann gæti farið til Washington og lagt sitt af mörkum til að sátt næðist um lausn efnahagsvandans.

McCain fór fram á að sjónvarpskappræðunum sem eiga að fara fram á föstudagskvöld yrði frestað. Þá hvatti hann Barack Obama til að fylgja frumkvæði sínu.

„Ég hvet forsetann til þess að kalla til fundar með leiðtogum beggja deilda þingsins auk mín og öldungardeildarþingmannsins Obama,“ sagði McCain í yfirlýsingu sinni. Yfirlýsing McCains kom aðeins nokkrum klukkustundum áður en George W. Bush Bandaríkjaforseti átti að ávarpa þjóðina vegna efnahagsvandans.

Óþarfi að fresta baráttunni

Skömmu eftir ávarp McCains ávarpaði Obama fjölmiðla. Hann sagðist hvorki sjá ástæðu til þess að gera hlé á kosningabaráttunni né að fresta sjónvarpskappræðunum.

„Almenningur hefur meiri þörf en nokkru sinni áður að heyra hvað frambjóðendurnir hafa fram að færa,“ sagði Obama í yfirlýsingu sinni. Hann sagði það verkefni forseta að kljást við fleira en eitt verkefni í einu og að í ljósi aðstæðna væri það nú mjög mikilvægt.

Obama sagði jafnframt að hann hefði ekki í hyggju að fara til Washington að svo stöddu, hann væri í góðu sambandi við leiðtoga þingsins og myndi fara þangað ef nauðsyn krefði.

Efnahagur í brennidepli

Stjórnmálaskýrendur hófu þegar að velta því fyrir sér hvort þetta skref McCains væri ætlað til að beina sjónum frá hruni hans í nýlegum skoðanakönnunum.

Það liggur fyrir að efnahagsvandinn mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir forsetaframbjóðendurna. Í leiðara Washington Post í gær kom fram að verkefni næsta forseta hafi með efnahagskreppunni orðið mun meira krefjandi. Stór loforð beggja frambjóðenda varðandi skattalækkanir eða aukin útgjöld verði að lúta nýjum aðstæðum.

Í hnotskurn
» Samkvæmt nýrri skoðanakönnun hefur Obama níu prósentustiga forskot á McCain.
» Fyrir tveimur vikum var baráttan nokkuð jöfn, þá leiddi McCain með tveimur prósentustigum.
» Fleiri kjósendur segjast treysta Obama fyrir efnahagsvandanum en McCain.