Háloftabardagi Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, hefur betur gegn Guðmundi Kristjánssyni, miðjumanni Blika.
Háloftabardagi Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, hefur betur gegn Guðmundi Kristjánssyni, miðjumanni Blika. — Morgunblaðið/Golli
FH-ingar sáu til þess að lokumferð Landsbankadeildarinnar í knattspyrnu verður spennandi með því að hreinlega valta yfir slakt lið Blika, 3:0, á Kaplakrikavelli í gær. Þar með er FH tveimur stigum á eftir Keflavík og vonir Hafnfirðinga um Íslandsmeistaratitil sennilega glaðvaknaðar.

Eftir Sindra Sverrisson

sindris@mbl.is

Ofanritaður varð vitni að því hve erfitt FH á með að játa sig sigrað á Fjölnisvelli í sumar þegar liðið vann þar upp þriggja marka forystu heimamanna á tæpum hálftíma. Sama þrautseigja einkennir liðið nú í lok Íslandsmótsins því þrátt fyrir að margir hafa afskrifað FH-inga eftir tapið gegn Fram í 20. umferð eiga þeir nú ágætis möguleika á Íslandsmeistaratitli.

Leikurinn í gær átti upphaflega að fara fram í lok ágúst en var frestað vegna þátttöku FH í UEFA-bikarnum. FH-ingar náðu fljótlega góðum tökum á leiknum og Atli Viðar Björnsson var búinn að koma þeim yfir strax á áttundu mínútu. Atli Viðar var mjög líflegur í leiknum og sannaði mikilvægi sitt með því að skora tvö mörk annan leikinn í röð. Þar að auki lagði hann upp annað mark leiksins fyrir nafna sinn, Atla Guðnason, eftir tæplega 40 mínútur.

Mikilvæg markvarsla

Blikar mættu ákveðnir til leiks og áttu sín færi í fyrri hálfleiknum en eftir að hafa lent 2:0 undir var eins og þeir legðu árar í bát. Atli Viðar nýtti sér það til að bæta við þriðja markinu undir lok hálfleiksins eftir góða sendingu Tryggva Guðmundssonar sem fann sig afar vel sem fremsti maður á miðjunni.

Seinni hálfleikur var ekki mikið fyrir augað en Jóhann Berg Guðmundsson hefði getað hleypt miklu lífi í leikinn þegar hann tók vítaspyrnu á 56. mínútu, en Gunnar Sigurðsson varði slakt skotið. Góð markvarsla sem gæti reynst verulega dýrmæt því ef FH vinnur a.m.k. tveggja marka sigur á Fylki í lokaumferðinni dugir Keflavík ekki jafntefli gegn Fram. Blikar náðu lítið að ógna marki FH eftir þetta og Hafnfirðingar geta svekkt sig á því að hafa ekki einfaldlega unnið stærri sigur.

Í takt við gengi krónunnar

Erfitt er að segja til um hvað er í gangi hjá Breiðabliki en liðið hefur lengst af leikið mjög vel í sumar. Gengið í síðustu leikjum hefur hins vegar verið í takt við gengi krónunnar og nú eiga Blikar, sem settu stefnuna á Evrópusæti eftir tap í undanúrslitum bikarsins, á hættu að hafna í áttunda sæti deildarinnar. Það var mikið andleysi í liðinu í gær. Sóknarmönnum gekk lítið að skapa sér færi og vörnin gerði sig oft seka um slæm mistök sem varð ekki til að auka lítið öryggi hins átján ára gamla markvarðar, Vignis Jóhannessonar, í hans fyrsta leik í byrjunarliði.

FH-ingar léku eins og þeir sem valdið hafa. Með bakið upp við vegg hafa þeir nú sýnt úr hverju þeir eru gerðir í síðustu tveimur leikjum. Tryggvi Guðmundsson hefur verið færður af kantinum inn á miðjuna og stóð sig mjög vel og ljóst að FH mun sakna hans í lokaleiknum gegn Fylki. Atli Guðnason er í staðinn á vinstri kantinum og átti einnig góðan leik en fremstur meðal jafningja var Atli Viðar Björnsson eins og áður segir. Dennis Siim var frábær í vörninni og svellkaldur í öllu sem hann gerði. Svo kaldur að það jaðraði reyndar við kæruleysi, og hans verður einnig saknað gegn Fylki. Guðmundur Sævarsson og Freyr Bjarnason hafa verið bakverðir í síðustu tveimur leikjum og stóðu sig vel bæði í vörn og sókn.

Á laugardag ráðast úrslitin í deildinni og þá mætir FH Fylki. Vinnist sigur þar þarf liðið svo að treysta á að Fram nái í það minnsta jafntefli í Keflavík. Það er ekki svo ólíklegt og ástæðulaust annað en að skella smá kampavíni í kælinn í Krikanum.

mbl.is Landsbankadeildin

Bein textalýsing frá leiknum

1:0 8. Atli Guðnason tók hornspyrnu og sendi boltann inn á teig þar sem Freyr Bjarnason skaut í stöngina. Boltinn hrökk út til Atla Viðars Björnssonar sem skoraði.

2:0 39. Atli Viðar Björnsson kom boltanum inn fyrir vörn Blika á Atla Guðnason sem skoraði framhjá markverði Blika.

3:0 45. Skömmu fyrir leikhlé fékk Atli Viðar Björnsson stungusendingu frá Tryggva Guðmundssyni og var sloppinn einn í gegn. Vignir Jóhannesson markvörður Blika varði skot hans en Atli Viðar náði frákastinu og skoraði.

FH

MM

Atli Viðar Björnsson

M

Gunnar Sigurðsson

Guðmundur Sævarsson

Dennis Siim

Freyr Bjarnason

Davíð Þór Viðarsson

Tryggvi Guðmundsson

Atli Guðnason

Breiðablik

M

Kristinn Jónsson

Guðmundur Kristjánsson

FH 3 Breiðablik 0

Kaplakrikavöllur, úrvalsdeild karla, Landsbankadeildin, miðvikudaginn 24. september 2008.

Mörk FH : Atli Viðar Björnsson 8., 45., Atli Guðnason 39.

Markskot

: FH 16 (8) – Breiðablik 4 (2).

Horn : FH 4 – Breiðablik 4.

Rangstöður : FH 3 – Breiðablik 3.

Skilyrði : Suðvestan kaldi og léttskýjað en mikil rigningarskúr um miðjan fyrri hálfleik. Völlurinn góður.

Lið FH : (4-3-3) Gunnar Sigurðsson – Guðmundur Sævarsson, Tommy Nielsen, Dennis Siim, Freyr Bjarnason (Hjörtur Logi Valgarðsson 73.) – Ásgeir Gunnar Ásgeirsson (Björn Daníel Sverrisson 62.), Davíð Þór Viðarsson (Matthías Vilhjálmsson 79.), Tryggvi Guðmundsson – Atli Guðnason, Matthías Guðmundsson, Atli Viðar Björnsson.

Gul spjöld : Guðmundur Sævarsson 23. (brot), Freyr Bjarnason 34. (brot).

Rauð spjöld : Engin.

Lið Breiðabliks : (4-4-2) Vignir Jóhannesson – Arnór S. Aðalsteinsson, Srdjan Gasic, Finnur Orri Margeirsson, Kristinn Jónsson – Nenad Petrovic, Arnar Grétarsson, Guðmundur Kristjánsson (Guðmann Þórisson 78.), Nenad Zivanovic (Olgeir Sigurgeirsson 67.) – Jóhann Berg Guðmundsson, Magnús Páll Gunnarsson (Prince Rajcomar 60.).

Gul spjöld : Arnar Grétarsson 32. (mótmæli), Srdjan Gasic 66. (hendi).

Rauð spjöld : Engin.

Dómari : Jóhannes Valgeirsson, KA, 5.

Aðstoðardómarar : Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson.

Áhorfendur : 683.

*Tryggvi Guðmundsson og Dennis Siim léku sinn síðasta leik á tímabilinu í gær. Þeir verða í banni þegar FH mætir Fylki í lokaumferðinni.

*Vignir Jóhannesson markvörður var í byrjunarliði Breiðabliks í efstu deild í fyrsta skipti. Hann er 18 ára og leysti af hólmi Casper Jacobsen sem meiddist í leiknum gegn Fylki um síðustu helgi.