Eftir Bjarna Ólafsson og Björgvin Guðmundsson ENGIN svör bárust frá Seðlabanka Íslands í gær um hvernig á því stendur að hann er ekki með í gjaldeyrisskiptasamningi seðlabanka Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar við bandaríska seðlabankann.

Eftir Bjarna Ólafsson og

Björgvin Guðmundsson

ENGIN svör bárust frá Seðlabanka Íslands í gær um hvernig á því stendur að hann er ekki með í gjaldeyrisskiptasamningi seðlabanka Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar við bandaríska seðlabankann. Þeir sem Morgunblaðið ræddi við innan fjármálageirans sögðust óánægðir með að Seðlabankinn skyldi ekki vera í hópi með seðlabönkum hinna Norðurlandanna.

Skiptasamningur sem þessi myndi létta mjög á gjaldeyrismarkaði hér á landi en umtalsverður skortur hefur verið á erlendum gjaldeyri. Fjármálastofnanir eru tregar til að lána gjaldeyri sín í milli og Seðlabankinn lánar bönkunum enn sem komið er bara íslenskar krónur. Þessi staða er meðal annars orsök þess að ávinningur útlendinga af því að kaupa jöklabréf hefur minnkað og er fall krónunnar undanfarið m.a. rakið til þess.

Evrulán ekki á borðinu

Samningarnir eru, eins og áður segir, svokallaðir gjaldeyrisskiptasamninga milli seðlabanka þessara ríkja og Bandaríkjanna. Samkvæmt Bloomberg- fréttaveitunni hafa bankar Norðurlandanna aðgang að allt að 20 milljörðum dollara, andvirði um 2.000 milljarða íslenskra króna, og á það að létta á þrýstingi á alþjóðlegum mörkuðum sem reiða sig á fjármögnun í þeim gjaldmiðli.

Þetta er sambærilegur samningur þeim, sem Seðlabanki Íslands gerði fyrr á árinu við þrjá norræna seðlabanka. Það veitti honum aðgang að 500 milljónum evra frá hverjum þeirra, alls 1,5 milljörðum evra. Sá samningur þótti mjög jákvæður fyrir gjaldeyrismarkaðinn hér.

Einungis þau lönd ESB sem standa utan evrusvæðisins geta gert skiptasamninga sem þessa við önnur lönd. Evrópski seðlabankinn sér um gerð slíkra samninga fyrir evrulönd eins og Finnland.

Norski seðlabankinn greip til þess ráðs fyrir skömmu að bjóða þarlendum bönkum upp á skiptasamninga í dollurum en alvarlegur dollaraskortur var þá á norskum gjaldeyrismarkaði.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur komið til tals að Seðlabanki Íslands opni svipaðar lánalínur fyrir íslenska banka í evrum. Þær hugmyndir munu hins vegar vera úti af borðinu í bili.