Sigríður Ingibjörg Eyjólfsdóttir fæddist á Bjargi í Borgarfirði eystra hinn 30. júlí 1921. Hún lést á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum aðfaranótt 17. september síðastliðins. Foreldrar hennar voru Anna Guðbjörg Helgadóttir og Eyjófur Hannesson hreppstjóri. Sigríður var elst 6 systkina, eitt þeirra lést á fyrsta ári. Hin eru, Helgi, d. 23.6. 2008, Árni Hannes, Jónbjörg Sesselja og Kristín Sigurlaug.

Fyrri eiginmaður Sigríðar var Geir Sigurjónsson, sonur hjónanna Guðfinnu Kristínar Þórðardóttur og Sigurjóns Bjarnasonar á Hvoli í sömu sveit. Fyrstu búskaparár sín bjuggu þau á Jökulsá eða fram til ársins 1946 er þau fluttu í Steinholt á Bakkagerði. Þau eignuðust 9 börn. Bjarni, f. 1939, Haukur Guðjón, f. 1941, Rúnar Eyjólfur, f. 1942, Margrét Ingibjörg, f. 1943, Anna Sigurbjörg, f. 1944, Svandís, f. 1946, Karl Brynjar, f. 1947, d. 1965, Hjálmar Björn, f. 1950, og Ásta Steingerður, f. 1953. Barnabörn þeirra eru 23, barnabarnabörnin eru 37, tvö þeirra eru látin og eitt barnabarnabarnabarn. Afkomendur eru því 70. Sigríður og Geir slitu samvistum. Seinni maður Sigríðar var séra Sverrir Haraldsson, f. á Hofteigi á Jökuldal 27.3. 1922, d. 26.1. 1997. Tveggja ára fluttist hann með foreldrum sínum séra Haraldi Þórarinssyni og Margréti Jakobsdóttur að Haga í Mjóafirði. Sverrir gekk menntaveginn og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og kandídatsprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands. Hans fyrsta og eina brauð var við Bakkagerðiskirkju en þá veitingu fékk hann árið 1963, hann þjónaði þar í 30 ár . Hann var hagyrðingur góður og komu út eftir hann 3 ljóðabækur.

Sigríður var mikill náttúru- og friðarsinni. Hún var félagi í Ferðafélagi Íslands í áratugi og Náttúruverndarsamtökum Austurlands, eftir að þau voru stofnuð, einnig virkur félagi í Samtökum herstöðvaandstæðinga. Hún var bókavörður við Lestrarfélag Borgarfjarðar um árabil og sinnti því af mikilli natni því bækur voru gull í hennar augum, enda víðlesin og víðsýn. Hún var mjög tónelsk og hafði yndi af að dansa, einnig mjög hagmælt þó að hún flíkaði því lítið. Tók þátt í starfsemi leikfélagsins, var mikill grúskari og liggur eftir hana mikið efni gamalla sagna o.fl. Hún hafði einnig mjög ákveðnar skoðanir á þjóðmálum og miðlaði því til þeirra sem hún umgekkst. Hún var ekki allra en vinur vina sinna var hún og talaði ætíð máli þeirra sem minna máttu sín.

Útför Sigríður fer fram frá Bakkagerðiskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Með sorg í hjarta kveð ég þig elsku besta mamma, takk fyrir elsku þína og hlýju og lífið sem þú gafst mér. Þetta litla ljóð er hinsta kveðja mín til þín, en ljóð og lausavísur skipuðu stóran sess hjá þér alla tíð.

Kæra mamma, ljúfur Guð þig leiði,

um landið efra að Edens fögrum lund,

og á þinn legstað blóm sín fögur breiði,

svo blessi Drottinn þessa hinztu stund.

Í okkar hjarta ljúf þín minning lifir,

þú leiddir okkur fyrstu bernsku spor.

Við biðjum Guð, sem ræður öllu yfir,

að enn þér skíni blessuð sól og vor.

Hjartans þakkir, elsku mæta móðir,

þér miskunn veiti Guð svo hvílist rótt.

Þig verndi og gæti allir englar góðir,

ástarþakkir, mamma, góða nótt.

(H.J.)

Um leið og ég tileinka móður minni þetta ljóð vil ég þakka starfsfólki á sjúkradeild á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum fyrir kærleiksríka og góða umönnun móður minnar á hennar ævikvöldi.

Vertu ávallt Guði falin, elsku mamma, þín

Margrét.

Þar sem Atlantshafsaldan brýtur fald sinn við fjörustein og Dyrfjöllin vaka yfir byggðinni í Borgarfirði eystra ól móðuramma okkar, Sigríður Eyjólfsdóttir, nálega allan sinn aldur. Við systkinin, börn Önnu dóttur þinnar og Erlings Pálssonar, höfum raðað saman nokkrum minningabrotum um okkar ástkæru ömmu. Fyrst þegar við vorum að heimsækja þig var það í stóra húsið, Ásbyrgi. Að fara til ömmu í Ásbyrgi var mikið ferðalag, kryddað spenningi og tilhlökkun. Stundum varð eitthvert okkar þeirra forréttinda aðnjótandi að fara ein með mömmu okkar til ömmu. Fá að sitja með henni í stofunni eða eldhúsinu, spjalla saman eða hlusta á samræður fullorðna fólksins í stóra húsinu á sjávarbakkanum. Sveitabörnum úr Vopnafirði fannst fjörulyktin vond. En inni ríkti annar ilmur. Kaffilykt og kökur í ofni blönduðust ilminum frá pípu séra Sverris. Smitandi hlátur þinn ómaði um húsið þegar þú skelltir á lærið og tókst bakföll. Þorpið sjálft kyrrlátur vettvangur fólks sem lifði af gæðum lands og sjávar líkt og forfeður þess um aldir. Heimilið var mikið bókaheimili og þar mátti bókaormur lengi una við grúsk og lestur. Eða tónlistin sem hvergi heyrðist annars staðar. Megas og Bergþóra Árnadóttir. Gamlí sorrý gráni og Guð býr í garðslöngunni amma, þóttu okkur mjög athyglisverðir textar. Baráttsöngva verkalýðsins heyrðum við líka hjá þér, enda trú þínum pólitísku skoðunum. Ófáum skópörunum sleistu í Keflavíkurgöngum og öðrum snúningum fyrir þinn helga málstað. Þú reyndir að innræta okkur virðingu fyrir þeim sem eru trúir sínum skoðunum þó að maður deili þeim ekki með þeim. Þú tókst okkur með í fjöruferðir að uppgötva og rannsaka skeljar og kuðunga og það sem hafið bar á land hverju sinni. Svo voru það gönguferðirnar upp í Dyrfjöll að tína grjót. Líparít, agat og aðra litríka steina og þú barst bakpokafyllir af þeim heim fyrir okkur. Hún amma okkar hlustaði á okkur og talaði við börn sem jafningja. Veitti góð ráð og hvatti okkur til að gera það sem við höfðum áhuga á hvert fyrir sig. Seinna fluttu amma og Sverrir í Steinholtið. En þá vorum við orðin eldri og farin að ferðast sjálf á eigin vegum og síðar með okkar fjölskyldum. Spjall í Steinholtinu, berjaferðir inn að Hvoli og kaffi heima eða í félagsheimilinu á eftir.

Þegar heilsan tók að bila og séra Sverrir hafði kvatt þetta líf flutti amma sig um set á sjúkrahúsið á Egilsstöðum hvar við heimsóttum hana af og til. Sama hlýjan og stutt í brosið þó að aldurinn vissulega setti mark sitt á þig. Þú talaðir oft um að þér liði vel og að um þig væri hugsað af alúð og umhyggju. Fyrir það færum við hugheilar þakkir.

Elsku amma Sigríður, vonandi finnur þú réttlátari veröld heldur en þá sem þú hefur nú hvatt. Þú vildir bæta heiminn og færa öllum jöfnuð og vissulega auðgaðir þú líf okkar ömmubarnanna þinna og allra sem þú snertir á lífsleiðinni.

Sigríður, Skarphéðinn

og Rannveig.

Örfá fátækleg kveðjuorð við fráfall mætrar samferðakonu, sem átti hina beztu eiginleika heillyndis og stefnufestu en umfram allt hina umvefjandi alúð. Þar fór rausnarkona góðrar reisnar. Þær eru margar minningarnar hlýju sem vakna þegar hún Sigríður Eyjólfsdóttir er kvödd. Ljúft er að þakka liðnar stundir þegar við áttum samfundi, þegar ég fékk notið ríkulegrar gestrisni hennar og Sverris manns hennar þar sem veizluföng góð voru á borðum og ekki var andans borð þeirra góðu hjóna síðra. Undur var það notalegt á ströngu fundaferðalagi að sækja þau heim, það yljaði hjartanu að fá rætt við þau um það sem efst var á baugi hverju sinni, finna einlægnina í orðum þeirra öllum, hjá báðum var aldrei nein ónytjumælgi finnanleg. Það var svo að maður fór alltaf bjartsýnni af þeirra fundi, ákveðnari að freista þess að vinna góðum málefnum brautargengi svo sem hvatning þeirra hjóna beggja stóð ævinlega til. Sigríður Eyjólfsdóttir var kona sem kenndi sannarlega til í stormum sinnar tíðar, átti einbeittar vel ígrundaðar skoðanir, fylgdist einkar vel með straumum og stefnum, hafði andstyggð á auðsins prjáli og yfirdrepsskap öllum. Það var ákveðin auðlegð að eiga fylgd hennar í sameiginlegum hugsjónamálum, engin hálfvelgja var þar á ferð, heil og óskipt fylgdi hún málstað sínum fram, hvort sem var í þjóðmálum almennt eða í áfengisvarnamálum sem hún ræddi oftlega við mig. Fyrir hin góðu kynni er ég ævinlega þakklátur, fyrir hlýhuginn jafnt sem brýninguna, fyrir að vera það sem hún var. Ég kveð hana með virðingu og þökk. Við Hanna sendum hennar góða fólki, börnum hennar, barnabörnum og öðrum þeim er áttu hana að einlægar samúðarkveðjur. Það er viss ljómi yfir ljúfri minningu um Sigríði Eyjólfsdóttir. Blessuð sé sú minning.

Helgi Seljan.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Þegar mér sígur svefn á brá

síðastur alls í heimi,

möttulinn þinn mjúka þá,

Móðir, breiddu mig ofan á,

svo sofi ég vært og ekkert illt mig

dreymi.

(Einar Ól. Sveinsson.)

Elsku amma, takk fyrir samverustundirnar.

Guðrún, Eygló, Fanney

og Rúnar.