Sarah Palin, varaforsetaefni Repúblikanaflokksins, hefur verið gagnrýnd fyrir skort á þekkingu á utanríkismálum. Þegar John McCain valdi hana sem varaforsetaefni sitt hafði hún aldrei hitt erlendan þjóðhöfðingja.

Sarah Palin, varaforsetaefni Repúblikanaflokksins, hefur verið gagnrýnd fyrir skort á þekkingu á utanríkismálum. Þegar John McCain valdi hana sem varaforsetaefni sitt hafði hún aldrei hitt erlendan þjóðhöfðingja. Hún er 44 ára, en það var fyrst í fyrra sem hún þurfti að fá sér vegabréf.

Hún hefur nú undanfarna daga reynt að víkka sjóndeildarhringinn og átt stutta fundi með erlendum þjóðhöfðingjum í New York. Hitti hún þar Hamid Karzai, forseta Afganistans, og Alvaro Uribe Kólumbíuforseta.

Fundurinn með Karzai hófst á því að þau ræddu um börnin sín, en Karzai sagði eftir á að sér hefði virst hún kunna vel til verka. „Hún spurði réttra spurninga um Afganistan. Hún lét sig málin varða og spurði hvernig hún gæti orðið að liði.“

Í gær ætlaði hún að halda áfram fundum með erlendum leiðtogum og hitta Mikhaíl Saakashvili, forseta Georgíu, og Viktor Jústsénkó Úkraínuforseta, auk forseta Íraks og Pakistans. Ennfremur ætlar Palin að eiga fund með Bono, söngvara U2, sem hefur beitt sér í mannréttindamálum á alþjóðavettvangi. kga@24stundir.is