Musteri neysluhyggjunnar? Tekjur okkar hafa hækkað gríðarlega á undanförnum 40 árum, en fjöldi þeirra sem lýsa sjálfum sér sem „mjög hamingjusömum“ er óbreyttur. Öll þessi neysla er semsagt ónauðsynleg.
Musteri neysluhyggjunnar? Tekjur okkar hafa hækkað gríðarlega á undanförnum 40 árum, en fjöldi þeirra sem lýsa sjálfum sér sem „mjög hamingjusömum“ er óbreyttur. Öll þessi neysla er semsagt ónauðsynleg. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is ÞVÍ HEFUR verið fleygt að því meira sem við eyðum, því betra sé það fyrir hagvöxtinn en því verra fyrir andlega heilsu okkar.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

ÞVÍ HEFUR verið fleygt að því meira sem við eyðum, því betra sé það fyrir hagvöxtinn en því verra fyrir andlega heilsu okkar.

Samfélagið sem við búum í þrífst í miklum hagvexti sem mældur er í vergri þjóðarframleiðslu. Þjóðarframleiðslan er keyrð áfram af gífurlegri neyslu. Hagvöxtur er nauðsynlegur til þess að greiða niður opinberar skuldir og fjármagna velferðarkerfið. Þannig að ef fólk myndi hætta að versla myndi efnahagurinn hrynja, skrifaði Madeleine Bunting í grein í breska blaðinu The Guardian.

Erum ekki hamingjusamari

Auglýsingar og markaðssetning, sem er stór hluti af efnahagnum, er háð því að við höldum áfram að versla og að börnin okkar fylgi í okkar fótspor.

En það er ákveðin firring í þungamiðju þessa fyrirkomulags. Þessi firring birtist best í tölfræði sem notuð hefur verið af bandaríska sálfræðingnum Tim Kasser. Tekjur okkar hafa hækkað gríðarlega á undanförnum 40 árum, en fjöldi þeirra sem lýsa sjálfum sér sem „mjög hamingjusömum“ hefur haldist óbreyttur á sama tíma. Öll þessi neysla er semsagt ónauðsynleg fyrir andlega velferð okkar eða hamingju. Tölfræði Kassers veitir bæði góðar vísbendingar og slæmar vísbendingar. Góðu fréttirnar eru að samfélag lítillar neyslu myndi ekki þýða eymd. Við myndum semsagt pluma okkur ágætlega. Á móti kemur að það er nokkuð undarlegt að við höldum áfram að versla þegar það gerir okkur ekki hamingjusamari. Tim Kasser hefur bent á að ofurneysla er í raun viðbrögð við innra óöryggi.

Tim Kasser var prófdómari í doktorsvörn Rögnu Benediktu Garðarsdóttur félagssálfræðings. „Ofurneyslu má útskýra með mörgum þáttum. Efnishyggja er ákveðið gildismat, eða hugsanaferli, sem getur valdið minni hamingju hjá fólki. Það er því bein fylgni á milli efnishyggju og óhamingju,“ segir Ragna.

Aukin neysla samhliða óöryggi

Undanfarna áratugi hefur óöryggi skotið rótum á fleiri stöðum. Til viðbótar við það hvernig auglýsingageirinn hefur lengi reynt að stýra hegðun okkar eru nú nýjar tegundir óöryggis í samfélögum þar sem stórir samkeppnismarkaðir þrífast. Um er að ræða skort á sjálfsvitund (hver er ég og hvaða hópi tilheyri ég?) til einfaldra spurninga (hver hugsar um mig í ellinni?). Þetta nána samband milli óöryggis og efnishyggju útskýrir hvers vegna efnishyggja er jafn ríkjandi í jafn ólíkum löndum og Bandaríkjunum og Kína, þessi lönd eru þjökuð af óöryggi, segir Madeleine Bunting.

„Óöryggi getur leitt af sér vaxandi efnishyggju, en það er ekki búið að sýna fram á það með óyggjandi hætti að það sé eina ástæða efnishyggju. Með öðrum orðum er óöryggi ekki forsenda efnishyggju,“ segir Ragna. Hún segir að fleiri ástæður geti leitt til aukinnar neyslu, en óöryggi sé vissulega ein af þeim. „Margir neytendur bera sig iðulega saman við náungann og í samfélagi sem elur á efnishyggju og gildismati sem byggist á fögrum hlutum er líklegt að margir lendi í vítahring neyslunnar,“ segir Ragna.

Efnishyggja stuðlar að kvíða

Kasser hefur bent á að efnishyggja stuðlar að auknum kvíða hjá fólki, fólk verður berskjaldaðra fyrir þunglyndi og ósamvinnuþýðara. Rannsóknir sýna að fólk veit innst inni hvað veitir því langtíma lífsfyllingu, þ.e. góð sambönd við annað fólk, sjálfsviðurkenning og samfélagsvitund. En þessir hlutir mæta mjög harðri mótspyrnu frá teymi efnahagslegra og pólitískra hagsmuna sem vill tryggja að fólk vinni lengur og eyði meiri peningum.

Erfitt að snúa þróuninni við

Að snúa þessari þróun við er gífurlega stórt verkefni og umbreytingu í þjóðfélag minni neyslu þarf að stýra varnfærnislega til þess að tryggja mjúka lendingu, segir Bunting. Eitt stærsta vandamálið sem blasir við er að minni neysla gæti leitt til efnahagslegs óstöðugleika og aukins óöryggis, auk þess sem loftslagsbreytingar gera fólk óöruggara með sig. Viðbrögðin gætu orðið þau að fólk félli aftur í gamla neyslufarið eða færði sig enn frekar upp neyslustigann til þess að deyfa sig gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Hið gagnstæða er hins vegar alveg jafn líklegt, að með minni neyslu myndi athygli fólks færast að því sem raunverulega skiptir máli, hlutum sem stuðla að langvarandi lífsfyllingu. Mörg okkar gera sér grein fyrir því að róttækar lífsstílsbreytingar eru óhjákvæmilegar, en við erum að bíða eftir því að einhver annar stuðli að slíkum breytingum, að sögn Bunting.

„Mér finnst við vera á þröskuldi mjög athyglisverðra tíma. Það eru margir að lenda í vandræðum með sinn lífsstíl. Það er spurning hvort það birtist sem löðrungur í andlitið á fólki. Maður getur breytt skoðunum og breytt hegðun, en að breyta gildismati í samfélagi er miklu erfiðara. Ég held að tíminn einn verði að leiða það í ljós hvort þessari þróun verður snúið við,“ segir Ragna.

S&S

Skapa peningar hamingju?

Svarið við spurningunni er jákvætt, en að takmörkuðu leyti í þróuðum löndum eins og Íslandi. Fræðimenn hafa sýnt fram á að fjölskyldulíf, vinátta og hjónabönd hafa mun meiri áhrif á hamingju fólks á Vesturlöndum heldur en tekjur og eignir, samkvæmt upplýsingum á vísindavef Háskóla Íslands.

Hver er fylgnin milli hamingjuaukningar og aukinna tekna?

Sumar rannsóknir benda til að sú hamingjuaukning sem verður við auknar tekjur sé ekki tilkomin vegna sjálfra teknanna, heldur vegna þess að fólk er hærra í þjóðfélagsstiganum. Hamingjan myndi því aukast mun minna ef efnahagsstaða samborgaranna styrktist samhliða eigin tekjuaukningu. Fyrir ríkar þjóðir er því ólíklegt að hamingja einstaklingsins aukist verulega við það að verða ríkari þótt velferð hans aukist í einhverjum skilningi.

Kvíði eftir kaup

Neyslusamviskubit [e. Buyer's remorse] er eitt af nýjum „vandamálum“ neysluþjóðfélagsins. Um er að ræða hugarástand þar sem manneskja finnur fyrir samviskubiti eða eftirsjá eftir kaup á hlut. Samviskubitið er oft tengt kaupum á dýrari hlutum en mun þó einnig vera afleiðing af sjálfsefa eða einbeittum vilja til að hafa ekki rangt fyrir sér.

Kvíði eftir kaup getur verið afleiðing mismunandi þátta. Þeir geta verið áhyggjur yfir því að hafa keypt vitlausa vöru, áhyggjur yfir því af hafa greitt of mikið, keypt án þess að bíða eftir nýrri tegund af tiltekinni vöru, keypt án þess að hafa efni á því eða út í reikning eða áhyggjur yfir því að hafa keypt hlut eða vöru sem viðkomandi teldi að yrði ekki samþykkt af öðrum.

Í öfgakenndum tilvikum, þegar einstaklingur þjáist af stórfelldri eftirsjá eða getur ekki sætt sig við að hafa mögulega gert mistök, er hugsanlegt að viðkomandi þjáist af alvarlegri kvilla sem hefur lítið að gera með neyslusamviskubit.

Í hnotskurn
» Efnishyggjufólk er líklegra en aðrir til að telja að hamingjan sé fólgin í eignum og peningum. Það telur einnig að mæla megi velgengni í peningum.
» Hagkerfi sem byggt er á óöryggi og skorti á sjálfsvitund þrífst án utanaðkomandi aðstoðar eða hjálpar; því óöruggara sem fólk er með sjálft sig því háðara er það veraldlegum gæðum og öfugt.
» Aukin alþjóðavæðing og efling stórfyrirtækja hefur getið af sér fjöldahreyfingar sem berjast gegn neysluhyggju.
» Eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 var fólk hvatt til að halda ró sinni og versla.